Sjálfbærnivegferð Rotovia
Rotovia er eitt af fyrirtækjum í eignasafni framtakssjóðasviði sem hefur nýtt sér sjálfbærniráðgjöf Lab21st. Rotovia er alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki og er eitt stærsta hverfisteypufélag í Evrópu. Félagið þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina í mismunandi atvinnugreinum með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Í kjölfar fjárfestingar Freyju í Rotovia var farið í stefnumótunarvinnu þar sem framtíðarsýn og vaxtarstefna félagsins til ársins 2028 var mótuð og er sjálfbærni þar í forgangi. Áætlað er að um það bil 20% af endurunnu hráefni verði í framleiddum vörum árið 2028 og þá mun Rotovia kynna til leiks nýtt skilakerfi, þar sem viðskiptavinir skila til baka gömlum og úr sér gengnum vörum til endurvinnslu. Þetta mun bæta hringrás vörunnar og auka sjálfbærni til muna.
Fjárfesting Freyju í Rotovia var að hluta til fjármögnuð með lánsfjármögnun þar sem lánskjör félagsins eru tengd ákveðnum UFS viðmiðum og er það fyrsta fjárfesting framtakssjóðasviðs sem fjármögnuð er með slíkum hætti. UFS markmiðin sem voru samþykkt skuldbinda Rotovia til að draga úr heildarorkunotkun og vægi jarðefnaeyldsneytis í framleiðslu sem og að auka vægi endurunnins hráefnis í vörum félagsins.
UFS vinnustofa með Lab 21st
Kvika eignastýring hélt sjálfbærni og UFS vinnustofu fyrir forstjóra, fjármálastjóra og starfsmenn 11 fyrirtækja í eignasafni þar sem markmiðið var að kynna breytt regluverk, góðar starfsvenjur og helstu upplýsingar um sjálfbærni í rekstri félaganna.
Ráðgjafafyrirtækið Lab21st leiddi vinnustofuna, en það sérhæfir sig í að hjálpa fyrirtækjum að takast á við breytingar í tengslum við sjálfbærni og býr yfir djúpri sérfræðiþekkingu á nýsköpun og hringrásar hagkerfinu
Vinnustofunni var skipt í þrjú þemu en fyrst var rætt um kerfishugsun og mismunandi viðskiptamódel hringrásarhagkerfisins, svo var farið yfir UFS grundvallaratriði og breytt lagaumhverfi og að lokum var farið yfir hagstæð atriði til að hjálpa félögum að innleiða nýsköpun í tengslum við sjálfbærni.