Júpíter rekstrarfélag hf. hefur lokið fjármögnun á nýjum sjóði sem ber nafnið ACF III slhf. Sjóðurinn er samlagshlutafélag sem kemur að fjármögnun fyrirtækja. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 19,5 milljörðum króna og fjárfestingartímabil hans er þrjú ár. Sjóðurinn mun fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, sér í lagi með veði í fasteignum og fastafjármunum.
Rekstraraðili sjóðsins er Júpíter rekstrarfélag hf. sem er dótturfélag Kviku banka hf. Júpíter rekur fyrir fjölmarga sjóði sem koma að fjármögnun fyrirtækja með mismunandi hætti. Heildareignir í stýringu hjá Júpíter eru um 150 ma.kr. Eigendur sjóðsins eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins.
Framkvæmdastjóri sjóðsins er Þorkell Magnússon en hann er jafnframt forstöðumaður sjóðastýringar hjá Júpíter. Þorkell hefur um 20 ára reynslu í eigna- og sjóðastýringu. Þá hefur hann komið að fjármögnun fyrirtækja í meira en áratug. Þorkell er verkfræðingur frá Háskóla Íslands, með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota og hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Þorkell Magnússon, framkvæmdastjóri ACF III slhf.:
„Þetta er ánægjuleg niðurstaða eftir langt og stíft ferli á óvenjulegum tímum. Eins og hjá fyrri sjóðum í rekstri félagsins leggjum við áherslu á að finna áhugaverða fjárfestingakosti og um leið bæta kjör fyrirtækja.“
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags hf.:
„Góður árangur fyrri sjóða og traust fjárfesta endurspeglast í frábærri þátttöku í ACF III sem er stærsti sjóður sinnar tegundar á Íslandi. Stofnun á ACF III er afar jákvætt skref í örum vexti og uppbyggingu Júpíters.“
Nánari upplýsingar veitir Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Júpíters, í síma 522-0010.