Vaxtasloppurinn kvaddur

miðvikudagur 27. maí 2020

Óhætt er að segja að vatnaskil hafi orðið í íslensku efnahagslífi þegar Seðlabanki Íslands lækkaði meginvexti sína úr 1,75% í 1,0% í síðastliðinni viku. Þá var framsýn leiðsögn Seðlabankastjóra í kjölfarið  mjög skýr: Seðlabankinn mun leggjast af fullum krafti við að ýta hagkerfinu upp úr djúpum hjólförunum með peningastefnu sem nú í fyrsta skipti fetar svipaðar slóðir og hjá vestrænum ríkjum með svipað lánshæfi og hið íslenska.

Íslenskt vaxtastig hefur verið hátt seinasta hálfa áratuginn– raunstýrivextir hafa hér verið á bilinu 1,5-4,5% mest af tímabilsins á meðan þeir hafa verið neikvæðir í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Ástæður þess hafa verið mun meiri hagvöxtur hér en í nágrannalöndum og nokkuð óstöðugar verðbólguvæntingar en einnig hefur lág verðbólga komið mörgum á óvart, þar með talið Seðlabankanum. Íslenskir fjármagnseigendur hafa því verið vel haldnir og getað hallað sér aftur á innlánsreikningum og notið áhættulausrar raunávöxtunar sem þótt hefur öfundsverð í öllum vestrænum hagkerfum. Í gamni hefur verið talað um að klæðast „vaxtasloppnum“ í þeirri merkingu að óþarfi sé að fara í vinnuna þegar vextirnar sjá um það fyrir þig.

Vaxandi vaxtamunur

Þótt meginvextir Seðlabankans hafi lækkað umtalsvert hefur bankinn lýst áhyggjum sínum af því að lækkun vaxta skili sér ekki nægilega í útlánavöxtum fyrirtækja. Í nýútgefnum Peningamálum kemur fram að vaxtaálag á útlánum til fyrirtækja hefur hækkað á einu ári úr um 2,5% í 5,5%. Bankinn hefur bent á að viðskiptabankarnir hafi líklega lánað á of lágum vöxtum undanfarin ár með tilliti til kostnaðar og áhættu og það sé að leiðréttast nú. Að hluta til er það rétt skýring en á móti má benda á að á sama tíma hefur vaxtaálag bandarískra fyrirtækjaskuldabréfa í fjárfestingarflokki tvöfaldast úr 1,3% í 2,6%, og álag hávaxtaskuldabréfa hefur einnig tvöfaldast, úr 3,5% í 7%, á einu ári, þrátt fyrir kröftugar aðgerðir bandaríska seðlabankans. Hækkun álagsins hér heima endurspeglar því einnig aukna  útlánaáhættu sem er eðlilegt í svo djúpum efnahagssamdrætti.

Hlutfallsleg lækkun vaxtastigs á Íslandi á þessu ári er meiri en í flestum samanburðarlöndum á sama tíma og skuldsetning ríkissjóðs vegna faraldursins er mjög viðráðanleg, því ættu áhrifin að verða meiri af lækkandi vöxtum hér en víða annars staðar. Þótt lágir vextir minnki vaxtamun bankanna, styðja þeir við eignaverð og auðvelda skuldurum við að greiða af lánum sínum, sem ætti að hjálpa bönkunum að ná vopnum sínum á ný. Nýleg rannsókn evrópska seðlabankans bendir til að neikvæðir vextir hafi í heildina ekki haft neikvæð áhrif á evrópska banka með því að ýta undir eignaverð, draga úr hættu á vanskilum og örvað útlánavöxt. Íslenskir bankar ættu því ekki að örvænta þótt vextir lækki.

Áhrif vaxtalækkana og aðgerða Seðlabankans

Stytting innlána í Seðlabankanum, magnbundin íhlutun styttri ríkisbréfa og greið lausafjárfyrirgreiðsla gegn veðtryggðum lánum ætti að binda styttri enda vaxtakúrfunnar við meginvexti bankans og ýta því gríðarmikla fjármagni í kerfinu sem situr í dag í innlánum, upp ávöxtunarkúrfuna og í áhættusamari fjárfestingar. Við slík skilyrði ætti samkeppni banka, lífeyrissjóða og annara fjárfesta um lánveitingar til traustra lántaka að aukast og vaxtaálög því að minnka samhliða. Það ætti að geta stutt verulega við efnahagsbatann á næstu misserum.

En eru lágir vextir tímabundið ástand? Ef efnahagsáfallið verður þyngra og slakinn meiri en Seðlabankinn spáir, er líklegt að vextir lækki enn frekar. Ef ferðaþjónustan nær sér hins vegar fyrr á strik þá er engu að síður líklegt að mikill slaki verði áfram á vinnumarkaði en aukin bjartsýni og gjaldeyrisinnflæði væri líklegt til að styðja við krónuna  – raungengi krónunnar er í dag á svipuðum stað og þegar vöxtur ferðaþjónustunnar hófst árið 2015. Í öllu falli munu kraftar verðhjöðnunar vega áfram þungt en í dag gerir spá Seðlabankans ráð fyrir að verðbólga í árslok 2021 verði 1,4%, miðað við nokkuð veikara gengi krónu en í dag.  Vaxtasloppurinn mun því líklega hanga inni í skáp eitthvað um sinn.

Agnar Tómas Möller
Greinin var birt í Fréttablaðinu þann 27. maí 2020