Lækkandi verðbólguálag samfara aukinni verðbólgu

fimmtudagur 07. mars 2013

„Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur farið heldur lækkandi á síðustu dögum og vikum. Sú þróun skýtur skökku við verðlagsþróun í landinu, en 12 mánaða verðbólga hækkaði í 4,8% eftir verðbólgutölu febrúarmánaðar. Febrúar hefur frá og með árinu 2010 verið mesti verðbólgumánuður ársins, en ástæður þess eru margþættar. Gjaldskrárhækkanir koma inn af fullum þunga sem og skattahækkanir, auk þess sem útsölum lýkur víðast hvar.
Febrúarmánuður ársins 2013 var hins vegar óvenjulegur, en verðbólga í einum mánuði hefur ekki mælst jafnmikil frá nóvember 2008, þrátt fyrir að 12 mánaða verðbólga hafi oft verið hærri á síðastliðnum 4-5 árum en hún er núna. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem út komu í nóvember á síðasta ári var verðbólga á fyrsta fjórðungi 2013 áætluð 4,1%. Í nýjustu útgáfu Peningamála frá því 6. febrúar síðastliðnum (verðbólgutalan var birt í lok mánaðar) er verðbólguspá fyrsta fjórðungs lækkuð í 4%. Til að sú spá standist þarf verðlag að lækka um 0,7% í mars. Afar ólíklegt er að sú verði þróunin, þrátt fyrir að gengi krónu hafi að vísu styrkst á síðustu vikum.“