Forsíða /
Fréttir /
„3. tölul. 3. mgr. fellur brott.“

„3. tölul. 3. mgr. fellur brott.“

Fimmtudagur 14. mars 2013

„Úr upplýsingum frá Lánamálum ríkisins má lesa að á síðustu vikum hafa erlendir aðilar í auknum mæli fært sig yfir í lengri ríkisbréf. Þrátt fyrir að þar sé ekki um risavaxnar upphæðir að tefla, báru margir þær væntingar í brjósti sér að áðurnefnd þróun myndi halda áfram. Sérstaklega í ljósi þess að RIKB 13 er á gjalddaga í maí næstkomandi. Samkvæmt Lánamálum ríkisins áttu erlendir aðilar um 76% af þeim flokki við síðustu mánaðarmót, eða um 75 milljarða króna í heild. Var það skoðun margra að þegar eigendur RIKB 13 fengju greitt á gjalddaga flokksins yrði andvirðinu að mestu ráðstafað í löng ríkisbréf. Þessi þróun var meðal annars til umræðu í fréttabréfi Júpíters í síðustu viku.1 Ávöxtunarkrafa lengri ríkisbréfaflokka hefur lækkað nokkuð síðustu vikur þrátt fyrir að verðbólga hafi verið á uppleið. Innan dags, á þeim degi er þetta er skrifað, hafði kröfulækkun lengri flokka frá áramótum nærri gengið til baka.
Allt breyttist hins vegar þegar frumvarp um breytingar á gjaldeyrislögum birtist á vef Alþingis um síðustu helgi. Í því frumvarpi er skerpt á ýmsum skömmtunarreglum er snerta utanríkisverslun, búferlaflutninga, utanlandsferðir og önnur form viðskipta eða hinna ýmsu athafna sem krefjast kaupa eða sölu gjaldeyris á einhverju stigi málsins. Veigamesta breytingin er hins vegar sú að undanþága erlendra krónueigenda sem gerði þeim kleift að fjárfesta í fjármálagerningum sem metnir eru hæf til endurhverfra viðskipta hjá Seðlabanka Íslands er afnumin. Samkvæmt lagabreytingunni sem er til umræðu á Alþingi í dag er sú undanþága afnumin. Erlendir eigendur krónueigna er því orðnir landlausir með eftirfarandi lagabreytingu: „3. tölul. 3. mgr. fellur brott.“