Endurgreiðsla óhefðbundinna skulda

föstudagur 22. mars 2013

„Í upphafi þessarar viku birti Seðlabanki Íslands skýrslu um erlenda stöðu þjóðarbúsins og horfur um greiðslujöfnuð landsins. Í sem stystu máli leiðir skýrslan í ljós að viðskiptaafgangur þjóðarbúsins mun að óbreyttu ekki duga til að standa undir afborgunum erlendra skulda. Raunar er áhugavert hvernig skýrsluhöfundar Seðlabankans meta erlendu stöðuna og hvers kyns vandamál henni tengd séu í raun og veru. Rétt er að rifja upp að Seðlabankastjóri flutti erindi í Lundúnum í síðustu viku, þar sem fram kom að íslenska ríkið glímdi ekki við skuldakreppu „í hefðbundnum skilningi“ þess hugtaks.2 Sá hefðbundni skilningur sem vísað er til í nefndu erindi virðist síðan útskýrður nánar í skýrslunni. Skuldavandi er sagður vera fyrir hendi þegar afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum stendur ekki undir þáttagjöldum. Það eftir stendur að greiddum þáttagjöldum (vextir, arðgreiðslur og laun sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum) dugar hins vegar ekki fyrir afborgunum af höfuðstól erlendra lána.
Íslenska þjóðarbúið skapar þannig nægan gjaldeyri til að borga vexti af útistandandi, erlendum lánum, en getur ekki greitt höfuðstólinn. Í sem stystu máli er því ekki fyrirsjáanlegt til verði nægt fé til að greiða erlendar skuldir þjóðarbúsins. Hægt er að klæða þá staðreynd í búning „óhefðbundins“ skuldavanda, greiðsluvanda eða erfiðleika á sviði endurfjármögnunar.“