Forsíða /
Fréttir /
Fjármunamyndun og afskriftir

Fjármunamyndun og afskriftir

Fimmtudagur 04. apríl 2013

Allt frá efnahagsáfalli ársins 2008 hafa allflestir sem nokkurn tímann leiða hugann að efnahagsmálum lagt áherslu á að fjárfesting þurfi að taka við sér á Íslandi, svo að varanlegur efnahagsbati og vöxtur geti orðið í hagkerfinu. Sá litli hagvöxtur sem mælst hefur á þeim ríflega fjórum árum sem liðin eru frá áðurnefndu efnahagsáfalli hefur meira og minna verið borinn uppi af þremur stoðum; aukinni einkaneyslu í krafti úttekta á séreignasparnaði og lánaleiðréttinga; ófyrirséðum uppgripum í makrílveiðum; talsverðum hallarekstri ríkisins sem haldið hefur samneyslu hagkerfisins meiri en innistæða var fyrir.
Hægt er að sjá í hendi sér að tvö fyrstnefndu atriðin munu ekki standa undir sambærilegri aukningu efnahagslegra umsvifa og á síðustu árum, enda getur hver maður aðeins eytt séreignasparnaðinum sínum einu sinni og makrílveiðar eru takmörkunum háðar. Hallarekstur ríkisins mun síðan ekki hafa sömu vaxtaráhrif inn í framtíðina og hann hefur gert á síðastliðnum fjórum árum, þá nema síður sé.
Ef talið var hyggilegt að efla fjárfestingu á síðustu árum er það beinlínis lífsnauðsynlegt á næstu árum. Þar er ekki endilega um að tefla risavaxnar nýfjárfestingar í orkumannvirkjum, spítölum eða öðru í þeim dúr. Allir þeir fastafjármunir sem nýttir eru til framleiðslu afskrifast yfir tíma og því er fjárfesting nauðsynleg svo að fjármunaeign haldist í það minnst stöðug að raunvirði. Annars gengur hagkerfið á höfuðstól fastafjármuna með þeim afleiðingum að framleiðslugeta dregst saman og þar með minnka tækifæri til framtíðarvaxtar.
Íslenska hagkerfið dróst að raunvirði saman á árunum 2009 og 2010. Hins vegar mældist 2,9% hagvöxtur á árinu 2011. Í ljósi þess að fjármunaeign þjóðarbúsins dróst saman um 1,2% að raunvirði sama ár er óhætt að segja að hagvöxtur ársins 2011 sé nokkru lævi blandinn.