Forsíða /
Fréttir /
Nýr veðskuldabréfasjóður hjá Júpíter

Nýr veðskuldabréfasjóður hjá Júpíter

Miðvikudagur 03. febrúar 2016

Júpíter rekstrarfélag hf. hefur stofnað fagfjárfestasjóðinn JR Veðskuldabréf I í samstarfi við öflugan hóp fagfjárfesta. Sjóðurinn fjárfestir í veðskuldabréfum útgefnum af fyrirtækjum þar sem undirliggjandi veð eru fasteignir.

Fjármögnun sjóðsins lauk í desember 2015 og hefur sjóðurinn nú keypt safn veðskuldabréfa eftir að áreiðanleikakönnum lauk. Þrettán fjárfestar koma að sjóðnum og samanstendur hópurinn af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum.

Nánari upplýsingar veita Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri, og Stefán Helgi Jónsson, sjóðstjóri, í síma 522-0010.

Um Júpíter rekstrarfélag hf.
Júpíter rekstrarfélag hf. sérhæfir sig í stýringu fjármuna og starfrækir úrval skuldabréfa-, lausafjár- og hlutabréfasjóða sem eru rafrænt skráðir og opnir almenningi til fjárfestingar. Félagið rekur einnig blandaða sjóði og fagfjárfestasjóði. Eignir í stýringu félagsins eru um 30 milljarðar.

Fjárfestar í sjóðum félagsins eru einstaklingar, fyrirtæki, lífeyrissjóðir og sjóðir annarra rekstrarfélaga. Við stýringu sjóða eru hagsmunir sjóðfélaga ávallt hafðir að leiðarljósi með það að markmiði að ná framúrskarandi árangri þar sem skilvirku jafnvægi ávöxtunar og áhættu er náð. Sjóðir félagsins gefa út hlutdeildarskírteini sem eru ávísun á hlut í eignasafni sjóðanna og eru þær eignir aðgreindar frá eignum félagsins.

Júpíter var á meðal framúrskarandi fyrirtækja áranna 2013, 2014 og 2015 en viðurkenningin er unnin út frá ítarlegri greiningu Creditinfo á ýmsum þáttum sem varða rekstur og stöðu fyrirtækja á Íslandi.

Júpíter rekstrarfélag hf. hefur frá árinu 2007 starfað með leyfi Fjármálaeftirlitsins sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsleyfi félagsins tekur einnig til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnunar fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Júpíter er í eigu Kviku banka hf. sem er einnig vörslufyrirtæki félagsins.