Forsíða /
Fréttir /
Um hlutabréfavísitölur

Um hlutabréfavísitölur

Miðvikudagur 24. janúar 2018

Hlutabréfavísitalan sem gjarnan er notuð við samanburð ávöxtunar á Íslandi er OMXI8GI vísitalan sem Kauphöllin birtir. Í grunninn samanstendur vísitalan af þeim átta fyrirtækjum sem hafa hæsta veltu í þingviðskiptum síðustu sex mánuði. Flotleiðrétt markaðsvirði ákvarðar síðan vægi hvers félags. Hér er verið að styðjast við reglur á Norðurlöndum en þar eru þingviðskipti um 90% af öllum heildarviðskiptum en einungis rúm 33% á Íslandi. Á Aðallista NASDAQ OMX Iceland eru 16 félög skráð en einungis átta félög sem mynda vísitöluna hverju sinni. Vísitalan hefur jafnframt átt það til að útiloka eða yfirvigta ákveðnar atvinnugreinar, t.d. eru þrjú tryggingafélög á markaðnum en engin í núverandi vísitölu. Þá vega fasteignafélög um 26% af núverandi vísitölu en voru 0% áður en Reitir fóru á markað. Einnig duttu Hagar einu sinni út úr vísitölunni þegar félagið var með 9. hæstu þingviðskiptin en á þeim tíma var félagið með 7. hæstu heildarviðskiptin og 5. stærsta félagið í kauphöll. Ætla mætti að stærsti smásöluaðili á Íslandi ætti heima í vísitölunni.

Í dag vegur Marel um 41% og Icelandair um 14% í OMXI8GI. Þessi tvö félög vega því 55% í vísitölunni en þegar hæst var vógu þau um 61,5%. Slíkt getur seint talist góð dreifing og ef horft er til helstu vísitalna erlendis virðist þetta vera einsdæmi. Stærsta einstaka eign er tæp 4% í S&P 500 en í Vestur-Evrópu er stærsta eign úrvalsvísitalna almennt á bilinu 10-20%.

Það er mikilvægt að vísitala sé vel dreifð, endurspegli markaðinn, sé fyrirfram skilgreind og fjárfestanleg. OMXI8GI vísitalan getur hvorki talist vel dreifð né endurspeglar hún markaðinn vel. Einnig geta fjárfestingasjóðir ekki fylgt þeirri vísitölu, þar sem fjárfestingaheimildir þeirra heimila einungis fjárfestingu yfir 20% hjá einum útgefanda en að hámarki 35%.

Fjárfestingasjóðir og lífeyrissjóðir bera sig margir hverjir saman við OMXI8GI vísitöluna en þegar ákveðin félög vega svona þungt í vísitölunni er hætta á að sjóðirnir reyni frekar að faðma vísitöluna en huga að áhættudreifingu. Óskilvirk vísitala getur því leitt til meiri áhættusækni.

Hlutabréfavísitala Júpíters

Júpíter rekstrarfélag hefur búið til vel dreifða vísitölu sem vænta má að muni skila góðri áhættuleið- réttri ávöxtun frekar en að einblína á vísitölu sem hefur sögulega skilað hvað hæstri ávöxtun. Til að endurspegla markaðinn sem best eru öll félög á Aðallista NASDAQ OMX Iceland sem eru með viðskiptavakt gjaldgeng í vísitöluna. Vægi einstakra bréfa er síðan ákvarðað með því að reikna út markaðsvirði hvers útgefanda og heildarveltu síðustu 12 mánuði í lok síðasta viðskiptadags í febrúar og í ágúst. Hvort tveggja vegur 50% í vísitölunni en hámarks vægi hvers félags við endurstillingu er 15% og er mismuninum síðan dreift hlutfallslega á aðra útgefendur. Aðferðin er endurtekin þar til enginn útgefandi hefur hærra vægi en 15%.

Í desember 2017 hóf Júpíter rekstrarfélag rekstur á verðbréfasjóði sem fylgir eignasamsetningu Hlutabréfavísitölu Júpíters. Sjóðurinn er ætlaður þeim sem vilja fjárfesta til lengri tíma í hlutlausri stýringu með góðri dreifingu og litlum kostnaði. Með hlutlausri stýringu er átt við að við stýringu hafi sjóð- stjóri ekki skoðun á markaðsverði félaganna. Slík aðferðarfræði er sprottin upp úr þeirri hugmyndafræði að markaðurinn sé skilvirkur í þeim skilningi að erfitt sé að komast að því hvort sannvirði félaga sé frábrugðið markaðsverði þeirra og því sé erfitt að ná hærri ávöxtun en markaðurinn. Jafnframt lágmarka vísitölusjóðir mannlegar hugsunar- og tilfinningarlegar villur við stýringu. Einnig er hægt að nota sjóðinn sem grunnfjárfestingu en yfirvigta heildarhlutabréfasafnið með því að kaupa stök hlutabréf sem fjárfestirinn telur að séu undirverðlögð. Eina fría máltíðin í fjárfestingum er eignadreifing þar sem hún getur minnkað áhættu án þess að hafa áhrif á vænta ávöxtun.

Greinin var birt í viðskiptablaði Fréttablaðsins þann 24. janúar 2018