Forsíða /
Fréttir /
Agnar Tómas Möller og Sverrir Bergsteinsson til Júpíter

Agnar Tómas Möller og Sverrir Bergsteinsson til Júpíter

Föstudagur 17. maí 2019

Eins og fram hefur komið undrrituðu Kvika banki hf. og hluthafar GAMMA Capital Management hf. samning um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA í nóvember síðastliðnum. Í kjölfar kaupanna hafa breytingar orðið á skipulagi Júpiter með það að markmiði að bæta þjónustu við viðskiptavini, auka vöruframboð og ná fram samlegð í rekstri.

Samhliða ofangreindum breytingum hefur skuldabréfasviði Júpíter verið skipt í tvö svið, skuldabréf – markaðir og skuldabréf – kredit.

Agnar Tómas Möller hefur hafið störf sem forstöðumaður skuldabréfa – markaða en Agnar er annar af stofnendum Gamma og starfaði þar sem sjóðstjóri og framkvæmdastjóri sjóða frá árinu 2009. Hann hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði frá árinu 2001 er hann starfaði í greiningardeild Búnaðarbanka Íslands. Á árunum 2004–2006 starfaði hann í áhættustýringu Kaupþings og frá árinu 2006 til byrjun árs 2008 í skuldabréfamiðlun Kaupþings. Agnar er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Þorkell Magnússon tekur við sem forstöðumaður skuldabréfa – kredit en hann hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2018 þegar Alda sjóðir hf. sameinuðust Júpíter. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 1998. Þorkell er með C.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Sverrir Bergsteinsson hefur hafið störf sem sjóðstjóri skuldabréfa – kredit. Sverrir hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2006 en áður starfaði hann sem sjóðstjóri lánasjóða Gamma, skilanefnd og slitastjórn Landsbanka Íslands sem lánastjóri á fyrirtækjasviði og þar á undan hjá fjárfestingafélaginu Straumborg. Sverrir er með B.Sc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Júpiter rekstarfélag hf. sérhæfir sig í stýringu fjármuna og starfrækir úrval skuldabréfa-, lausafjár- og hlutabréfasjóða sem eru rafrænt skráðir og opnir almenningi til fjarfestingar. Félagið rekur einnig blandaða sjóði og fagfjárfestasjóði. Fjárfestar í sjóðum félagsins eru einstaklingar, fyrirtæki, lífeyrissjóðir og stofnanafjárfestar. Við stýringu sjóða eru hagsmunir sjóðfélaga ávallt hafðir að leiðarljósi með það að markmiði að ná framúrskarandi árangri þar sem skilvirku jafnvægi ávöxtunar
og áhættu er náð.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri Júpíter, í síma 522 0010 eða netfanginu ragnar.dyer@jupiter.is.