Forsíða /
Fréttir /
Júpíter verður Kvika eignastýring

Júpíter verður Kvika eignastýring

Þriðjudagur 08. september 2020

Síðustu misseri hefur verið unnið að því að endurskipuleggja eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðu Kviku banka hf. Þann 31. ágúst 2020 samþykkti Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands beiðni Kviku og Júpíters rekstrarfélags hf., dótturfélags bankans, um flutning á starfsemi eignastýringar Kviku yfir til Júpíters. Samhliða þessum breytingum var ákveðið að breyta nafni félagsins úr Júpíter í Kvika eignastýring hf. Þeir starfsmenn sem áður störfuðu hjá Kviku við eignastýringu starfa nú hjá Kviku eignastýringu hf. Nánar tiltekið samþykkti FME að flytja mætti eftirfarandi starfsemi eignastýringar Kviku til Júpíters:

  • Einkabankaþjónustu Kviku sem felur í sér eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi fjármálagerninga fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir;
  • Þjónustu stofnanafjárfesta sem felur í sér eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi fjármálagerninga til stofnanafjárfesta; og 
  • Rekstur sjóðanna Auður I fagfjárfestasjóður slf.; Edda slhf. og FREYJA framtakssjóður slhf.

Eftir þessa breytingu verða rekin þrjú tekjusvið innan Kviku banka hf., þ.e. bankasvið, fyrirtækjaráðgjöf og markaðir. Starfsemi eigna- og sjóðastýringar verður rekin í dótturfélagi bankans sem heitir nú Kvika eignastýring hf. Skipulag Kviku eignastýringar má sjá hér að neðan:

 

Skipurit Kviku eignastýringar.png

 

Í kjölfar þessara breytinga er Kvika eignastýring hf. orðið eitt stærsta eigna- og sjóðastýringarfyrirtæki landsins með 321 ma.kr. í stýringu. Með þessum breytingum teljum við að hægt sé að bæta þjónustu við viðskiptavini okkar enn frekar með skýru og skilvirku skipulagi. Sameinað félag samanstendur af mjög hæfu og reynslumiklu starfsfólki og verður meginmarkmið félagsins að veita viðskiptavinum áfram framúrskarandi þjónustu við ávöxtun fjármuna. Aukin áhersla verður lögð á greiningarvinnu og að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á fjölbreytt úrval fjárfestingakosta, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Einnig er það okkar trú að þessar breytingar muni styrkja starfsemina til frekari vaxtar.