Forsíða /
Fréttir /
Axlabandakenningin

Axlabandakenningin

Fimmtudagur 01. október 2020

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, 30. september sl.

Það fór ekki mikið fyrir hálfs árs afmæli efnahagskreppunnar af völdum heimsfaraldursins í seinustu viku, sem formlega hófst þann 23. mars þegar markaðir féllu eins og steinn eftir að veiran hóf innreið sína í Evrópu.  Það virðist ekki sérstaklega umdeilt að hin efnahagslega glíma við faraldurinn hefur gengið eins vel og óska hefði mátt hér á landi; aðgerðir stjórnvalda gagnvart fyrirtækjum og starfsfólki þeirra voru skjótar og hnitmiðaðar, og það sem líklega hefur vegið þyngst er að Seðlabanki Íslands hefur getað beitt sér af miklu afli. Þar leikur stór gjaldeyrisvaraforði lykilhlutverk og treystir kjölfestu verðbólguvæntinga - þótt stærsta útflutningsgrein landsins hafi þurrkast út, krónan hafi fallið um 16% árinu og verðbólga farið yfir markmið, vænta fjárfestar og fyrirtæki þess að verðbólga verði við eða undir markmiði horft til lengri tíma. Það er markverður árangur.

Þótt efnahagsviðbrögð víða um heim hafi miðað fyrst og fremst að því að fylla holu tapaðrar eftirspurnar sem kórónuveiran hefur valdið, er brýnasta verkefnið að örva fjárfestingu í arðbærum verkefnum sem geta lyft löskuðum og skuldsettari hagkerfum upp úr kreppunni. Þessari skoðun lýsti  bankastjóri seðlabankans í Minneapolis, Neel Kashkari, nýlega í viðtali við Bloomberg fréttaveituna – aukin skuldsetning í Bandaríkjunum yrði ekki vandamál ef hún færi í fjárfestingar í framtíðinni – öðru máli gegndi ef skuldsetningu væri beitt til að örva neystu til skemmri tíma.

Uppfærð fjármálaáætlun íslenska ríkisins gerir ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs vaxi úr 23% í um 55% árið 2022, sem hlutfall af landsframleiðslu. Vísbendingar að hausti benda til að kreppan verði dýpri en spáð hefur verið og því hætt við að skuldaukningin verði meiri. Á sama tíma er vaxandi umræða um að leiðin úr kreppunni verði studd með enn frekari hækkun launa og annarra bóta, bæði hjá hinu opinbera og einkageiranum. Hefur það meðal annars verið rökstutt með að hefðbundin efnahagslögmál falli úr gildi við núverandi aðstæður og vextir séu svo lágir að skuldsetning borgi sig, þar sem hagvöxtur framtíðar verði hærri en vaxtastigið í dag.

Í viðtalsþættinum Sprengisandi um síðastliðna helgi, líkti Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, því að hækka laun við núverandi aðstæður þegar verðmætasköpun hagkerfisisns hefur fengið þungt högg, við því að „hífa sig upp á axlaböndunum“. Sumir virðast hafa fengið innblástur af svokallaðri „nútíma peningahagfræði“ (MMT) sem telur að ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil og ótakmarkað peningaprentunarvald, geti eytt áður en fjármunanna er aflað og svo rétt sig af með skattheimtu í þann mund þegar efnahagsslakinn líður undir lok og verðbólgan lætur á sér kræla. Þótt skiptar skoðanir séu um ágæti þeirrar kenningar er það minna umdeilt að einungis stór lokuð hagkerfi með litlar erlendar skuldir, s.s. Bandaríkin, Japan, Bretland og Kanada, gætu leyft sér að hugsa með þeim hætti, hvað þá opin örhagkerfi eins og hið íslenska.

Ein smæsta mynt í heimi þarf að stökkva hærra en hinar stærri, Ísland getur ekki leyft sér sömu hluti og Japan og Bandaríkin sem dæmi. Árið 2019 skuldaði íslenska ríkið 23% af landsframleiðslu, áberandi lítið meðal vestrænna ríkja, en mun að óbreyttu skulda vel yfir 60% af landsframleiðslu á árinu 2022. Ef allar skuldir íslenska ríkisins yrðu endurfjármagnaðar á núverandi fjármögnunarkjörum ríkisins á næstu árum, yrði greiðslubyrðin mjög há í alþjóðlegum samanburði og einkum ríki (meðal OECD) við eða fyrir ofan okkur sem talin eru með ósjálfbæra skuldastöðu, s.s. Ítalía, Grikkland, Tyrkland, Brasilía og Suður Afríka.

20201001-axlabandakenningin.png

En þannig byrja flestar skuldakreppur, lágir langtímavextir, sem eru vísbending um daprar hagvaxtahorfur, freista til lántöku til óskynsamlegra og ósjálfbærra ráðstafana, sem svo hækkar vextina og dregur úr vaxtarhorfum þangað til ekki er lengur hægt að vaxa út úr skuldahítinni. Við hífum okkur ekki upp á axlaböndunum úr því.