Forsíða /
Fréttir /
Seðlabankinn tali minna og framkvæmi meira

Seðlabankinn tali minna og framkvæmi meira

Miðvikudagur 14. október 2020

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, ræðir við Fréttablaðið um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Fréttin birtist í dag í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Fjárfestar hafa áhyggjur af innlendri fjármögnunarþörf ríkissjóðs á komandi árum og að hún muni að óbreyttu þrýsta vöxtum á skuldabréfamarkaði til hækkunar á sama tíma og efnahagshorfur fara versnandi. Frá því í lok ágúst hafa vextir á tíu ára ríkisskuldabréfum hækkað um liðlega 0,4 prósentur – úr 2,6 prósentum í tæplega 3 prósent – og eru nú komnir á svipaðar slóðir og í mars þegar stýrivextir Seðlabankans voru 2,25 prósent.

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, bendir á að nettó innlend fjármögnunarþörf ríkisins samkvæmt fjárlagafrumvarpi sé um 500 milljarðar króna til næstu tveggja ára, og líklega talsvert meiri í ljósi versnandi efnahagshorfa. „Hver á að kaupa þetta allt? Markaðurinn er að segja að vaxtakjörin verði að vera hærri, á meðan ekki liggur skýrar fyrir um hvernig standa eigi að fjármögnun á þessari gríðarlegu lánsfjárþörf ríkisins sem og annarra opinberra aðila, svo sem sveitarfélaga,“ segir Agnar í samtali við Markaðinn.

„Skilaboðin sem markaðurinn er að senda eru líklega á þá leið að Seðlabankinn þurfi að byrja að tala minna um magnbundna íhlutun [kaup á ríkisskuldabréfum] og þess í stað að framkvæma meira,“ útskýrir Agnar. Það gæti þá leitt til þess að verðmyndun á skuldabréfamarkaði yrði eðlilegri og í samræmi við væntingar um þróun peningastefnunnar, en framvirkir vextir á skuldabréfamarkaði benda til þess að vextir byrji að hækka nokkuð hratt á næsta ári, sem gerir peningastefnuna mun aðhaldssamari en sem nemur eins prósents meginvöxtum bankans. Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða í mars, en frá þeim tíma hefur hann hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir.

Hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á undanförnum vikum má meðal annars rekja til umfangsmikillar sölu erlendra fjárfestingarsjóða. Þannig hefur BlueBay Asset Management, einn stærsti eigandi íslenskra ríkisbréfa, selt fyrir vel á þriðja tug milljarða frá því í ágúst, að sögn þeirra sem þekkja vel til.

Agnar segir áhugavert að bera saman stöðuna á Íslandi við önnur minni ríki sem eru með sinn eigin gjaldmiðil og eru á verðbólgumarkmiði, eins og til dæmis Noreg, Nýja-Sjáland, Pólland og Ísrael. Þar hafa langtímavextir haldist mjög lágir og ekki fjarri stýrivöxtum viðkomandi ríkja – tíu ára vextir á bilinu 0,5 til 1,2 prósent – en öll þessi ríki byrjuðu framkvæmd á magnbundinni íhlutun fljótlega eftir að heimsfaraldurinn hófst, eða gáfu mjög sterka, framsýna leiðsögn um vaxtastigið í tilfelli Noregs.

„Þróunin hér er því að einhverju marki séríslensk og ekki eitthvað sem við erum að sjá í öðrum vestrænum ríkjum með háa lánshæfiseinkunn,“ að sögn Agnars. Hann segir ljóst að ekki sé hægt að halda því fram að Seðlabankinn sé að gera lítið – bankinn hefur lækkað vexti úr 3 prósentum í 1 prósent á árinu – en skýringin liggi einkum í því að peningamálayfirvöld hér á landi eru að gera minna en annars staðar í magnbundnum aðgerðum. Þá hefur framsýn leiðsögn bankans með vaxtastigið frekar verið í þá átt að þeir kunni að hækka fyrr en seinna, en að þeir muni haldast lágir meðan efnahagslífið er að jafna sig.

Spurður segir Agnar það ekki vera rétt, eins og oft sé haldið fram í umræðunni, að Ísland sé í einstakri stöðu til að skuldsetja ríkissjóð vegna lágra vaxta og bendir hann á að fjármögnunarvextir hafi hækkað talsvert að undanförnu. „Ísland er auk þess að borga hlutfallslega mun meira en aðrar vestrænar þjóðir fyrir sína skuldsetningu og að mínu mati er meiri óvissa um hagvaxtarhorfur fyrir næstu ár hér en víða annars staðar, þar sem ferðaþjónustan spilar svo hlutfallslega stórt hlutverk í viðspyrnunni,“ segir Agnar, en samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður hagvöxtur á bilinu 3 til 4 prósent á árunum 2021 og 2022.

Þá bendir Agnar á að ríkissjóður geti dregið úr innlendri lántökuþörf sinni með því að skoða frekar erlenda fjármögnun, annaðhvort beint með skuldabréfaútgáfu eða nýta gjaldeyrisinnstæður ríkisins í Seðlabankanum sem nema um 220 milljörðum. Annað sem Seðlabankinn gæti gert, að mati Agnars, er að gera bönkum auðveldara að eiga endurhverf viðskipti við Seðlabankann með traust íbúðalán að veði, til lengri tíma en í dag. „Í dag er þetta aðeins til skamms tíma á næstum tvöföldum meginvöxtum bankans og bankarnir nýta þetta ekki. Það myndi þá draga verulega úr útgáfu sértryggðra bréfa og beina þá fjármunum til ríkis og annarra opinberra aðila sem þurfa að fjármagna sig á markaði.“