Forsíða /
Fréttir /
Tækifæri í krefjandi lágvaxtaumhverfi

Tækifæri í krefjandi lágvaxtaumhverfi

Mánudagur 19. október 2020
Hannes - KVIKA portraits3083.jpg

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmda-stjóri Kviku eignastýringar, var nýlega í viðtali við Viðskiptablaðið í tengslum við sérútgáfu þeirra um fyrirmyndarfyrirtæki. Hann fjallaði m.a. um Kviku eignastýringu og tækifærin í lágvaxtarumhverfi. Viðtalið má finna hér að neðan.

Síðustu ár hafa verið talsverðir umbrotatímar hjá Kviku banka en á undanförnum tíu árum hafa tólf fjármálafyrirtæki sameinast undir hatti bankans. Umsvif starfseminnar hafa eðli málsins samkvæmt tekið stakkaskiptum í takt við það. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Bankinn hefur komið að mörgum yfirtökum og samrunum og er árangur þeirrar vegferðar ekki síst að koma fram einmitt núna. Árið í fyrra var ákveðið uppgjör vegna þessara kaupa þar sem farið var í að endurskipuleggja eignastýringarstarfsemina í samræmi við það,“ segir Hannes.

Kvika hefur gefið það út að bankinn ætli  sér að vera leiðandi á sviði eignastýringar hér á landi. Undir lok síðasta árs var tekin ákvörðun um að samþætta eignastýringarstarfsemi samstæðunnar sem mest á einum stað. Í september á þessu ári fékk Kvika eignastýring hf. leyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Við það fluttist öll eignastýringarstarfsemi sem áður hafði verið í bankanum til félagsins. „Heildareignir í stýringu hjá Kviku banka eru í dag um 515 milljarðar króna og af því eru um 321 milljarðar í stýringu hjá Kviku eignastýringu hf. sem gerir okkur að einu stærsta eignastýringarfélagi landsins. Á fimm ára tímabili frá árinu 2015 hafa heildareignir í stýringu hjá Kviku nærri fimmfaldast eða farið úr 111 milljörðum í 515 milljarða nú. Það er gríðarlegur vöxtur,“ segir Hannes. Innan fyrirtækisins er gríðarleg reynsla af fjármálamarkaði. „Við töldum þetta saman um daginn og er heildarstarfsaldur á fjármálamarkaði þeirra þrjátíu starfsmanna sem starfa hjá félaginu yfir 500 ár. Með auknum umsvifum síðustu ára er sérhæfing okkar alltaf að aukast.“

Starfsemi hins sameinaða félags skiptist niður í fjögur tekjusvið; sjóðastýringu, stofnanafjárfesta, framtakssjóði og einkabankaþjónustu. Stærsta sviðið er sjóðastýringarsvið sem annast rekstur á verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum. Stofnanafjárfestasvið annast stýringu á fjármunum lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta. Framtakssjóðasvið rekur ýmsa framtakssjóði sem fjárfesta í óskráðum hlutabréfum. „Einkabankaþjónustan veitir efnameiri einstaklingum og fjölskyldum víðtæka fjármálaráðgjöf. Margir viðskiptavinir þar hafa fylgt okkur allt frá tíð MP banka og Auðar Capital en undanfarin ár hefur verið mikill vöxtur í þessari þjónustu. Það er reyndar áhugavert að þótt við höfum vaxið mjög hratt undanfarin ár í gegnum ytri vöxt, gegnum sameiningar og yfirtökur, þá hefur innri vöxtur einnig verið mjög mikill. Það er ekki sjálfgefið að slíkt náist samtímis miklum ytri vexti. Ávöxtun okkar safna hefur verið góð undanfarin ár og við leggjum áherslu á langtímaárangur,“ segir Hannes.

Líkt og önnur fyrirtæki hefur Kvika eignastýring þurft að aðlaga sig að breyttum samfélagslegum og efnahagslegum veruleika það sem af er ári. Framkvæmdastjórinn segir það hafa gengið framar vonum. „Bæði hefur gengið vel að fella starfsemina að þessum breyttu tímum og að halda uppi hefðbundinni starfsemi með stundum hátt í helming starfsfólks heima við. Við höfum verið dugleg við að halda dampi varðandi upplýsinga- og hádegisfundi fyrir okkar viðskiptavini með aðstoð tækninnar. Það er kannski það jákvæða sem hægt er að taka úr þessu öllu saman, að við eigum inni vannýtt tækifæri hvað varðar miðlun upplýsinga og samskipti í gegnum tæknina, þótt auðvitað sé ekkert sem getur komið fullkomlega í stað persónulega viðmótsins,“ segir Hannes.

„Önnur áskorun sem blasir við er sá breytti veruleiki sem felst í lækkun vaxta. Við erum nú í fyrsta sinn í lágvaxtaumhverfi sem hefur mikil áhrif á fjárfesta og markaðinn í heild sinni. Fjárfestingartækifæri eru ekki jafn augljós og áður og því eykst þörf og eftirspurn eftir sérhæfðri fjárfestingaráðgjöf þar sem fjárfestar leita í áhættusamari vörur í leit að meiri ávöxtun. Á sama tíma og þetta er að gerast er fjármagnsmyndun og -eign í kerfinu í sögulegu hámarki, heimili landsins eiga um þúsund milljarða í innlánum og lífeyrissjóðakerfið er að vaxa hratt. Framtíð okkar, sem stórt eignastýringarfyrirtæki með mikla sérhæfingu, felur því í sér ýmsar áskoranir en á sama tíma tækifæri í að bjóða fjárfestum upp á aukið úrval sérhæfðra fjárfestingarkosta til að ávaxta fé sitt,“ segir Hannes að lokum.