Forsíða /
Fréttir /
Vaxtasloppurinn sóttur

Vaxtasloppurinn sóttur

Miðvikudagur 04. nóvember 2020

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Fréttin birtist í dag í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Eftir að hafa vera hengdur upp í kjölfar þess að Seðlabankinn lækkaði meginvexti sína í 1% í maí síðastliðnum, ákvað skuldabréfa-markaðurinn á þessum haust- og vetrardögum, að nóg væri komið og vaxtasloppurinn skyldi sóttur úr skápnum á ný. Vextir á skuldabréfamarkaði hafa hækkað allverulega síðastliðna mánuði og fá ef nokkur dæmi í öðrum ríkjum um slíka þróun á sama tíma og skýin dökkna yfir efnahagslífinu hér heima sem og erlendis. Fjármagnseigendur geta því á ný fundið hlýju í vöxtum sem eru allt að þrisvar sinnum hærri en meginvextir Seðlabankans í dag.

Þótt fyrstu áhrifin hafi komið fram í hækkun húsnæðislánavaxta Íslandsbanka á dögunum hefur hækkun fjármögnunarkjara bankanna á húsnæðislánum hækkað umtalsvert meira en sem nemur hækkun bankans og því líklegt að frekari hækkanir muni eiga sér stað að óbreyttu. Einnig hafa fjármögnunarkjör Reykjavíkurborgar og Lánasjóðs Sveitarfélaga, sem bæði þurfa að sækja sér umtalsvert fjármagn næstu misseri,  versnað hratt seinustu mánuði og hafa sem dæmi verðtryggðir vextir á fjármögnun Lánasjóðsins rokið upp úr um 0,1% í um 1,3% þegar þetta er skrifað.

Þrátt fyrir hækkandi vexti hefur áhugi fjárfesta farið minnkandi á skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs undanfarið. Það er umhugsunarefni í ljósi þess að á sama tíma hafa efnahagshorfur, bæði til skemmri og milli langs tíma, versnað allverulega og því útlit fyrir að tímabil lágra stýrivaxta muni vara lengur en búast hefði mátt við fyrir nokkrum mánuðum.

Að mati greinarhöfundar eru ástæðurnar fyrir ofangreindri þróun einkum eftirfarandi:

  1. Hratt vaxandi fjárþörf ríkissjóðs og sveitarfélaga veldur fjárfestum vaxandi áhyggjum yfir því hvernig fjármögnun hallans muni ganga.
  2. Á síðustu mánuðum hefur stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa í ársbyrjun selt alla stöðu sína, hátt í um 50 milljarða króna.
  3. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa verið nettó seljendur í innlendum skuldabréfum á árinu og hafa á móti aukið eign sína verulega í innlendum innlánum.
  4. Þótt efnahagshorfur hafi versnað verulega frá seinasta sumri hafa engar markverðar aðgerðir litið dagsins ljós hjá Seðlabankanum sem styðja við efnahagslífið frá því vextir voru lækkaðir seinast fyrir tæpu hálfu ári.

Jákvæðu fréttirnar eru hins vegar þær að eign erlendra aðila i íslenskum ríkisskuldabréfum er það lág, líklega vel undir 2% af landsframleiðslu, að horft fram á veginn hlýtur að vera líklegra að erlendir aðilar fjárfesti í íslenskum vöxtum en þeir selji þau fáu bréf sem eftir standa, og styðji þannig við efnahagsbatann. Sögulega er verðlagning íslenskra vaxta í erlendum gjaldmiðlum hagstæð – sem dæmi er langtíma raunvaxtamunur við Bandaríkin svipaður nú og á miðju ári 2016 en gengi dollar á móti krónu hátt í 30% veikara miðað við sama tíma.

20201104 - Vaxtasloppurinn sóttur.png

Þá vekur athygli að þótt raunvextir á innlánum standi í dag í nærri mínus þremur prósentustigum á sama tíma og raunvextir skuldabréfa eru almennt jákvæðir, virðist það ekki duga til að freista fjárfesta nægilega til að færa fjármuni úr innlánum. Skortur á stuðningi Seðlabankans við fjármögnun ríkissjóðs og húsnæðislána veldur þar miklu sem og fjarvera leiðsagnar bankans um þróun vaxtastigins næstu misserin, sem er algerlega á skjön við gerðir flesta erlenda seðlabanka. Birtingarmynd þess kemur meðal annars fram á skuldabréfamarkaði sem verðleggur að stýrivextir muni fara yfir 2% við lok næsta árs á sama tíma og við stöndum nálægt botni efnahagslægðarinnar.

Líkja mætti áhrifum stýrivaxta Seðlabankans á hagkerfið í dag við fáklæddan einstakling í frostviðri sem stendur í lappirnar í heitri laug. Þótt ilurinn af lágum vöxtum sé vissulega notalegur dugar hann ekki einn og sér, og áhrifin dvína hratt í bröttu vaxtarófinu. Jákvæðu áhrifin eru þó mögulega þau að skuldabréfamarkaðurinn setur hinu opinbera, ríki sem sveitarfélögum, ákveðnar skorður við hvernig með fjármuni er farið og hve stórum skuldum við munum velta yfir á komandi kynslóðir. Það kann þó að vera að það hafi ekki verið áætlunin.