Forsíða /
Fréttir /
Hlutabréfamarkaður og kórónuveiran

Hlutabréfamarkaður og kórónuveiran

Þriðjudagur 08. desember 2020

Eggert Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eignastýringu, skrifar um hlutabréfamarkaðinn og áhrif kórónuveirunnar. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar.

Umtalsverðar hækkanir hafa orðið á innlendum hlutabréfamarkaði á síðustu mánuðum eftir mikið verðfall hlutabréfa í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Eins einkennilega og það kann að hljóma má færa ýmis rök fyrir því eftir á að faraldurinn hafi reynst jákvæður á þróun eignaverðs og aukið áhuga fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði. En hver eru þessi jákvæðu áhrif? Væntingar um bóluefni, lækkandi vaxtastig, aukinn áhugi almennra fjárfesta á hlutabréfum ásamt yfirtökuáformum og samrunum eru nokkrir þættir sem hafa hreyft við markaðnum á árinu 2020.

Skuldsettir fjárfestar þurrkaðir út

Fjármálamarkaðir voru í frjálsu falli snemma á árinu þegar efnahagskerfi heimsins lömuðust skyndilega og kórónaveiran breiddi hratt úr sér. Þung alda skall á hlutabréfamörkuðum heimsins og féll t.d. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar (OMXI10) um tæpan fimmtung frá 24. febrúar til loka marsmánaðar. Þessi snarpa lækkun dró verulega úr skuldsetningu á hlutabréfamarkaðnum þegar skuldsettir einkafjárfestar voru bókstaflega þurrkaðir út af markaðnum í kjölfar veðkalla frá fjármálafyrirtækjum. Það jók einnig á söluþrýstinginn að erlendir sjóðir, sem höfðu verið meðal hluthafa í innlendum rekstrarfélögum um nokkurra ára skeið, þurftu að selja hlutabréf. Á hinni hliðinni opnuðu óskuldsettir kaupendur veskin og fóru þar fremstir í flokki lífeyrissjóðir. Þannig má segja að á fáum vikum hafi kvikir og skuldsettir fjárfestar farið út af markaðnum en í staðinn hafi langtímafjárfestar aukið við hlut sinn í innlendum hlutabréfum á brunaútsölu.

Eftir skarpa verðlækkun hlutabréfa náði markaðurinn jafnvægi í sumarbyrjun. Jafnframt dró verulega úr flökti og betri seljanleiki myndaðist á nýjan leik. Um miðjan júní var hlutabréfavísitalan hærri en hún hafði verið fyrir Covid 19. Sum félög hafa nær tvöfaldast í verði frá lægsta gildi á árinu eins og mynd 1 sýnir glögglega.

20201207 - Hlutabréf og Covid 1.png

Mynd 1. Ávöxtun hlutabréfa frá lægsta verði á þessu ári til 30.11.2020 (í %)

Neikvæðir raunvextir á bankabókinni

Seðlabankar um allan heim opnuðu vopnabúrið í baráttunni við snöggan og djúpan efnahagssamdrátt. Seðlabanki Íslands var engin undantekning og hefur nú lækkað stýrivexti um 2,25 prósentustig það sem af er ári. Eins og víða hefur komið fram, þar á meðal í umfjöllun Vísbendingar, ýttu lækkun vaxta, aukið framboð lausafjár og lækkun eiginfjárkrafna bankanna hressilega við fasteignamarkaðnum í sumar en einnig hafa vaxtalækkanir haft mikil áhrif á íslenska hlutabréfamarkaðinn. Ómögulegt er að segja hvort núverandi lágvaxtaumhverfi sé komið til að vera en ljóst er að það hefur ýtt undir áhættusækni rétt eins og til var ætlast.

Lægri vextir hafa margvísleg jákvæð áhrif á virði hlutabréfa. Mörg kauphallarfyrirtæki fjármagna sig á breytilegum kjörum sem endurspeglast beint í lægri fjármagnskostnaði. Lækkun langtímavaxta leiðir til lægri ávöxtunarkröfu sem fjárfestar gera til hlutabréfa og eykur virði frjáls sjóðstreymis. Þá er sparnaður heimila í sögulegu hámarki og ljóst að yfir 3% neikvæðir raunvextir bíta hressilega í. Er því ekki nema von að innlánseigandinn leiti í áhættusamari fjárfestingarkosti sem hann telur að skili betri ávöxtun.

Áhugi almennings eykst
Frá því að innlendur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir fjármálahrunið fyrir tólf árum hefur almenningur haft afar takmarkaðan áhuga á fjárfestingum í hlutabréfum. Eflaust spilar margt þar inn í. Stærstur hluti sparnaðar almennings myndast í lífeyrissparnaði sem dregur óbeint úr almennum sparnaði þar sem neyslufé er minna. Þannig á almenningur óbeint stóran hluta af innlendum hlutabréfamarkaði í gegnum lífeyrissjóði og verðbréfasjóði sem dregur úr hvata til þess að fjárfesta beint í hlutabréfum. Þróunin á liðnum árum hefur verið sú að þátttakendum á hlutabréfamarkaði hefur jafnt og þétt farið fækkandi. Eignarhlutur heimila í hlutabréfum er þ.a.l. mun minni en þegar skattaafsláttur hvatti almenning til þátttöku á hlutabréfamarkaði í kringum aldamótin. Þar að auki hafa margir ekki enn jafnað sig á hruni hlutabréfamarkaðarins árið 2008.

20201207 - Hlutabréf og Covid 2.png

Hlutafjárútboð Icelandair Group í september kann að hafa valdið straumhvörfum hvað varðar beina þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Hluthöfum flugfélagsins fjölgaði úr rúmum 3 þúsund í 11 þúsund eftir útboðið og hefur annar eins fjöldi ekki sést innan vébanda almenningshlutafélags eftir bankahrunið. Til að setja þennan fjölda í samhengi við önnur félög þá voru hluthafar í Marel, verðmætasta fyrirtæki kauphallarinnar sem er einnig skráð í Amsterdam, um 7.000 talsins í lok síðasta árs, um 6.500 í Arion banka, sem einnig er skráður á tveimur hlutabréfamörkuðum, en aðeins um 680 í Högum, stærstu verslunarkeðju landsins. Eftir að tilkynnt var um að nokkur bóluefni við kórónuveirunni væru langt á veg komin snemma í nóvember hækkuðu hlutabréf í Icelandair um nær 50% á nokkrum dögum og því hafa þeir sem tóku þátt í útboðinu fengið afar góða ávöxtun á skömmum tíma.

Fyrrnefnd hlutafjáraukning í Icelandair Group og vonir um bóluefni hafa sannarlega fært mikinn þunga í innlendan hlutabréfamarkað á fjórða ársfjórðungi. Fimm félög hækkuðu meira en 10% í október, þar af hækkaði Eimskip um rúm 40% eftir að Samherji eignaðist yfir 30% hlut í „óskabarninu“ og varð þar með yfirtökuskyldur. Hækkunarhrinan var jafnvel enn öfgakenndari í nóvember þegar 11 fyrirtæki á aðallista Kauphallarinnar hækkuðu um meira en 10%. Þau félög sem höfðu orðið mest fyrir barðinu á hruni ferðaþjónustunnar á Íslandi, eins og Icelandair og fasteignafélögin Eik, Reginn og Reitir, ruku upp í verði. Þessi bjartsýni var ekkert einskorðuð við Ísland. Bandaríska Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um 11,8% í nóvember sem er mesta mánaðarhækkun síðan 1987.

Nú falla öll vötn til hlutabréfamarkaðarins
20201207 - Hlutabréf og Covid 3.png

Þegar horft er fram á næsta ár er margt sem gæti stutt við hlutabréfamarkaðinn. Vextir munu að öllum líkindum haldast lágir næstu misserin og gera innlánseigendum erfitt um vik. Frekari færsla fjármuna úr innlánum og skuldabréfum yfir í áhættusamari eignaflokka gæti því orðið raunin.

Lífeyrissjóðir eru stórir gerendur á íslenskum hlutabréfamarkaði en áætlað er að eignarhlutur þeirra sé í kringum 50% af heildarmarkaðsvirði hans. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðir hafi haldið að sér höndum við kaup á gjaldeyri eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur hlutfall erlendra eigna vaxið úr 30% af heildareignum í byrjun árs í um 33% í lok september.[1] Ef Marel er flokkað sem erlend eign hækkar hlutfallið upp í tæp 37% og því er hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða að nálgast hámark. Þessu til viðbótar er nettóinnstreymi inn í lífeyrissjóðina, t.a.m. greiða fasteignaeigendur upp lífeyrissjóðalán og taka bankalán í staðinn. Bankabækur lífeyrissjóða hafa því gildnað hratt í neikvæðu raunvaxtaumhverfi en um 200 milljarðar lágu inni á bankabókum þeirra í lok september. Það verður því að teljast ósennilegt að lífeyrissjóðir minnki við hlutabréfaeign í eignasöfnum í núverandi umhverfi þegar vaxtastigið kallar á fjárfestingu í áhættumeiri verðbréfum.

Skortur á nýskráningum
Fleiri þættir gætu jafnframt sett þrýsting á hlutabréfaverð. Erlendir fjárfestar, sem hafa verið lítt áberandi og frekar verið seljendur, gætu farið að beina sjónum sínum að Íslandi á ný. Veik króna og aukinn stöðugleiki yfir fjármálamörkuðum gætu hjálpað til en ekki síst að íslenski markaðurinn færist í flokk vaxtarmarkaða hjá MSCI á komandi vori.

Enn fremur má nefna að þótt niðursveiflan í hagkerfinu, einkum vegna hruns ferðaþjónustunnar, hafi almennt dregið úr tekjum og hagnaði íslenskra fyrirtækja standa nær öll kauphallarfélög traustum fótum. Mörg þeirra búa við sterkt sjóðstreymi, svo sem félög í fjarskiptum og upplýsingatækni, verslun og tryggingum. Geta fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga til að greiða út arð og kaupa eigin bréf verður mikil þegar möguleikar til þess opnast á ný.

Þá er ekki ólíklegt að félögum gæti fækkað á innlendum markaði í kjölfar samruna og afskráninga. Kvika og TM ætla sér að sameinast í stórt fjármálafyrirtæki. Heimavellir voru yfirteknir af norskum aðilum fyrr í sumar og hópur stórra hluthafa í Skeljungi hefur í hyggju að taka félagið af markaði. Það væri bagalegt ef á sama tíma og eftirspurn eftir hlutabréfum er að aukast þá fækki félögum, enda gæti það hæglega leitt til eignabólu. Fá fyrirtæki hafa verið skráð í Kauphöllina á síðustu árum og helst að fyrirtæki hafi verið að færa sig af First North hliðarmarkaðnum yfir á aðallistann. Þetta gætu verið ákjósanlegar aðstæður fyrir ríkissjóð að draga úr umsvifum sínum á fjármálamarkaði með því selja hlut af eign sinni í Landsbankanum út frá þeim tillögum sem lagðar voru til í Hvítbók um framtíðarsýn um fjármálakerfið sem kom út árið 2018.[2] Skráning bankans myndi efla hlutabréfamarkaðinn og draga úr hættunni á því að hér myndist eignabóla á smáum markaði.

[1] https://www.sedlabanki.is/hagtolur/nanar/2020/11/05/Lifeyrissjodir/?stdID=11

[2] Sjá https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=e544d852-fc8f-11e8-942f-005056bc4d74. Landsbankinn var bókfærður á 197 milljarða króna í ríkisreikningi í árslok 2019 sem myndi gera hann að næststærsta félagi í Kauphöll yrði bankinn skráður á markað.