Forsíða /
Fréttir /
Tækifæri í lágvaxtaumhverfi

Tækifæri í lágvaxtaumhverfi

Miðvikudagur 09. desember 2020
Dora - KVIKA portraits3342.jpg

Dóra Björg Axelsdóttir, forstöðumaður einkabankaþjónustu Kviku eignastýringar, skrifar um tækifærin í lágvaxta-umhverfi. Fréttin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Stýrivextir á Íslandi hafa aldrei í sögunni verið lægri en nú og standa í 0,75%. Það er því við hæfi að velta því upp hvar tækifæri leynast fyrir almenning að ávaxta sparifé sitt. Með lágum vöxtum koma fram nýjar áskoranir – fjárfestar þurfa að taka meiri áhættu – en öllum áskorunum fylgja alltaf tækifæri.

Ástæða þessara lágu vaxta skýrist að miklu leyti af Covid-19 ástandinu. Íslenskt efnahagslíf er mjög háð ferðaþjónustunni en um 16% vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði starfa nú í greininni. Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar sem og á útflutningstekjur Íslands. Í efnahagsspá Seðlabanka Íslands kemur fram að landsframleiðsla muni dragast saman um 8,5% í ár og lítið verði um fjárfestingar annarra en opinberra aðila. Til að stemma stigu við þeirri stöðu mála hefur Seðlabankinn lækkað vexti til að örva eftirspurn í hagkerfinu.

Samfara lækkunum stýrivaxta hafa vextir á óbundnum innlánsreikningum stóru bankanna lækkað og liggja nú nálægt 0%. Verðbólguspár fyrir árið 2021 hljóða upp á 3,1% - 3,6% en 12 mánaða verðbólga stendur nú í 3,5%. Því má gera ráð fyrir að raunávöxtun innlána, þ.e. nafnávöxtun að frádreginni verðbólgu, verði neikvæð næstu misseri. Það vekur því upp þá spurningu hvort almenningur sé að fara á mis við betri tækifæri til að ávaxta sparifé sitt.

Samhliða vaxtalækkunarferli síðustu ára hefur átt sér stað gífurleg aukning í sparnaði og hafa innlán heimila aldrei verið meiri en nú. Sérfræðingar Kviku eignastýringar meta það svo að hluti þessara innlána, sem telur um 1.000 ma.kr., leiti inn á verðbréfamarkaðinn þar sem verðlagning er hagstæð miðað við stöðu hagkerfsins. Nýlegar fréttir af þróun bóluefnis vekja vonir um að viðspyrna í hagkerfinu verði mikil.

Áhættuvilji einstaklinga skiptir öllu máli þegar þeir ákveða hvort ávaxta skuli sparifé í innlánum eða á verðbréfamörkuðum. Þessu tengt, liggur nú fyrir á Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á fjármagnstekjuskatti. Þar er meðal annars að finna ákvæði um fjármagnstekjuskatt sem ætti að hvetja til aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og gera hann að enn álitlegri fjárfestingarkosti.

Við val á fjárfestingarstefnu teljum við að einstaklingar þurfi að setja sér raunhæf markmið um ýmsa þætti og má þá nefna fjárfestingartíma, áhættuþol og ávöxtun. Sérfræðingar Kviku eignastýringar gera sér grein fyrir að þörfin hefur sjaldan verið meiri fyrir virka stýringu eignasafna. Áskorunum fylgja tækifæri og í krefjandi umhverfi, sem við búum öll við í dag, þarf að koma auga á þessu tækifæri.