Forsíða /
Fréttir /
Skuldir framtíðarinnar

Skuldir framtíðarinnar

Fimmtudagur 10. desember 2020
Agnar 7.jpg

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Fréttin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Þrátt fyrir 2% vaxtalækkun Seðlabanka Íslands á árinu, tiltölulega stöðugt verðlag en versnandi efnahagshorfur, hafa langtímaraunvextir á Íslandi hækkað verulega síðustu mánuði. Þróun sem er á skjön við víðast erlendis og sem dæmi hefur bandaríski seðlabankinn lækkað stýrivexti um 150 punkta á sama tíma og langtíma raunvaxtamunur Íslands við Bandaríkin hefur meira en tvöfaldast á árinu og er nálægt 2% í dag.

Fjármálaráðherra lét hafa eftir sér í lok nóvember að vel hefði gengið að fjármagna hátt í 300 milljarða króna hallarekstur ríkissjóðs á líðandi ári og „margir möguleikar“ væru fyrir hendi við fjármögnun hallans horft fram á veginn, sem stefnir í vel yfir 1000 milljarða króna til ársins 2025. Þetta eru athyglisverð ummæli. Það sem af er ári hefur langmesti hluti fjármögnunar ríkissjóðs verið í formi stuttra skuldabréfa sem hafa að mestu verið fjármögnuð af fjármálastofnunum, með fjármunum sem Seðlabankinn „úthýsti“ úr bundnum innlánum í bankanum síðastliðið vor. Útboð ríkissjóðs á lengri tíma skuldabréfum, sem og Lánasjóðs Sveitarfélaga, hafa hins vegar gengið brösulega og verið framkvæmd „á hnjánum“ þar sem nær öllum tilboðum fjárfesta í umræddum útboðum hefur verið tekið. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra ef markmiðið er að viðhalda góðum fjármagnskjörum og endurspeglast í stöðugt versnandi lánsfjárkjörum ríkissjóðs og sveitarfélaga á lengri tíma skuldbindingum á síðari hluta ársins, þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans.

20201210 - Sjálfbærni skulda.png

Ólíka þróun langtímavaxta hér og erlendis má að miklu leyti rekja til þess að vestrænir seðlabankar hafa almennt stutt við fjármögnun opinberra aðila og viðhaldið nægri eftirspurn á eftirmarkaði, samhliða mikilli fjárþörf útgefanda á frummarkaði. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, hefur hins vegar verið skýr í málflutningi sínum og einfaldlega sagt að hér gildi önnur lögmál á Íslandi en í öðrum litlum opnum hagkerfum. Seðlabankinn hefur því ekki treyst sér til að kaupa íslensk skuldabréf í neinum mæli sem skiptir, hingað til.

Ummæli seðlabankastjóra þarf að setja í samhengi við skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga. Hið opinbera á Íslandi „spilar ekki í sömu deild“ og aðrar vestrænar þjóðir og efnahagsleg viðbrögð þurfa að taka mið af því. Erlendir seðlabankar og ríkissjóðir hyggjast víða stíga samstíga dans þar sem vöxtum til lengri og skemmri tíma er haldið lágum á meðan vonir eru um að vaxandi verðbólga og hagvöxtur muni minnka skuldafjall heimsfaraldursins með tíð og tíma. Líkt og ofangreind þróun ber með sér, eru langtímavextir mun hærri hér en í öðrum þróuðum ríkjum og hljóta því að setja stífari skorður við skuldaukningu en annars staðar.

Jafnvel þótt ótti margra um að framtíðin muni bera með sér kreppuverðbólgu (vegna hárra skulda og mikils peningamagns) muni ekki rætast, er ljóst að áskorun bíður íslensku þjóðarbúi að skapa þær útflutningstekjur sem bera eiga uppi hagvöxt framtíðar, eftir að verstu áhrif heimsfaraldursins hafa gengið yfir.  Verði árlegur hagvöxtur sem dæmi almennt 2% næsta áratuginn, munu skuldir sem bandaríska ríkið fjármagnar í dag, minnka um 26% af landsframleiðslu á tímabilinu á meðan skuldir íslenska ríkisins lækka um 10% og skuldir íslenskra sveitarfélaga standa í stað.

Það er engin sérstök ástæða til að óttast að skuldir hins opinbera verði ekki á endanum greiddar á tíma. Hitt er hins vegar ljóst að hin mikla skuldasöfnun í dag verður að sköttum og klyfjum framtíðarinnar – við því er engin töfralausn.