Forsíða /
Fréttir /
Mis(vel)heppnuð skuldabréfaútgáfa?

Mis(vel)heppnuð skuldabréfaútgáfa?

Fimmtudagur 25. febrúar 2021
Agnar 7.jpg

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Óhætt er að segja að peningastefnan hafi komið heimilum og fyrirtækjum til hjálpar í hinum djúpa efnahagssamdrætti nýliðins árs. Frá því vextir bankans lækkuðu í 1% síðastliðinn maí hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 7,7% og forðað íbúðar- og byggingamarkaðnum frá hengiflugi. Á sama tíma hefur vaxtabyrði íbúða, sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, lækkað um 37% að meðaltali (heimild: Viðskiptaráð) - talandi um að slá tvær flugur í einu höggi!

Sú þróun hefði ekki átt sér stað ef vaxtalækkanir Seðlabankans hefðu ekki skilað sér í gegnum bankakerfið til heimila og fyrirtækja. Samkvæmt gögnum Seðlabankans hækkaði meðalálag bankakerfisins (m.v. innlánsvexti)  frá sumri 2019 til íslenskra fyrirtækja úr 4,0% í 5,4% í apríl 2020, en hefur nú lækkað aftur í 4% á seinasta ársfjórðungi 2020. Vaxtaálag á nýjum húsnæðislánum bankakerfisins stendur í 3,2% sem er nálægt því lægsta í tölum Seðlabankans frá 2015.

Frá ársbyrjun 2019 hafa fastir verðtryggðir íbúðavextir bankanna lækkað að meðaltali úr 3,8% í 2,2% og fljótandi óverðtryggðir vextir úr 6,2% í 3,4% (Seðlabankinn birtir ekki tölur fyrir fljótandi verðtryggða og fasta óverðtryggða vexti). Hluti af ástæðu þeirrar miklu lækkunar er að fjármagnskjör bankanna á íbúðalánum hafa batnað, ekki bara gegnum lækkandi grunnvexti heldur með lækkandi vaxtaálagi. Meðal vaxtaálag sértryggðra skuldabréfa með lokagjalddaga 2026 er í dag um hálft prósent og hefur verið í lækkunarfasa frá því heimsfaraldurinn skall á.

Þrátt fyrir mikla og vaxandi eftirspurn eftir íbúðalánum hafa bankarnir haft sveigjanleika í útgáfu og getað hafnað tilboðum þegar svo ber undir. Sem dæmi samþykkti Íslandsbanki um 79% tilboða í útboðum sínum á seinasta ári, Landsbankinn um 73% og Arion banki einungis 37%. Til samanburðar er útgáfa Lánasjóðs Sveitarfélaga, stærsti útgefandi skuldabréfa á seinasta ári á eftir ríkinu og bönkunum, mjög einhæf og að bestu bundin við einn skuldabréfaflokk. Sjóðurinn þurfti nær undantekningalaust að samþykkja langflest tilboð í útboðum sínum og því var þróun vaxtaálags bankanna og Lánasjóðsins með gjörólíkum hætti á liðnu ári og er í dag tvöfalt hærra en hjá bönkunum.

20210224 - Vel heppnuð skuldabréfaútgáfa 1.png

Svipaða sögu má segja með innlenda fjármögnun ríkissjóðs sem hefur gengið ákaflega brösulega svo ekki sé fastar að orði komist. Ríkissjóður hefur á undanförnum misserum neyðst til að taka langflestum tilboðum í útboðum sínum sem hefur keyrt upp lengri tíma raunvexti sem eru nú á svipuðum slóðum og árið 2017 þegar mikil spenna og háir raunstýrivextir réðu ríkjum í hagkerfinu, öfugt við nú. Lengri tíma raunvaxtamunur hefur hækkað umtalsvert frá seinasta sumri – næstum þrefaldast við Bandaríkin, svo dæmi sé tekið.

Hækkunin hefur hins vegar verið meiri til lengri tíma en skemmri tíma sem birtist í því að „framtíðarvextir“ eru mun hærri hlutfallslega en til næstu ára. Sem dæmi kostar um 2% raunvexti að fjármagna ríkissjóð eftir 5 ár til 5 ára en einungis um 0% raunvexti til næstu 5 ára. Munurinn við Bandaríkin er nokkuð sláandi í ljósi þess að hagkerfið þar er að taka við sér fyrr og hraðar en hið íslenska að óbreyttu.

20210224 - Vel heppnuð skuldabréfaútgáfa 2.png

Samanburður á vel heppnaðri útgáfu bankanna og vandræðagangs við fjármögnun hins opinbera sýnir að hægt er að gera betur til að ná niður fjármagnskostnaði. Kjör ríkissjóðs og Lánasjóðs Sveitarfélaga, sem hefur veð í útsvari þeirra, setur grunn fyrir fjármagnskostnað þeirra langtíma fjárfestinga sem munu eiga sér stað á næstu misserum og árum. Nýleg útgáfa íslenska ríkisins í evrum, jafnfætis við Spán sem ólíkt Íslandi nýtur stuðnings evrópska Seðlabankans, sýnir að ríkissjóður nýtur trausts á erlendum fjármálamörkuðum og því ástæðulaust að vextir hins opinbera séu svipaðir og í ríkjum með talsvert lægra lánshæfi.

Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa skilað sér til heimila og fyrirtækja, óskandi væri ef þær myndu gera það líka til skattgreiðenda.