Forsíða /
Fréttir /
Hvað ef?

Hvað ef?

Miðvikudagur 07. apríl 2021
Agnar 7.jpg

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.

Í kjölfar þess að Demókratar náðu meirihluta í báðum deildum bandaríska þingsins og ljóst var að örvunarpakki upp á 1,9 billjónir dala yrði að veruleika, hafa hlutir þróast hratt á skuldabréfamörkuðum þar ytra. Vextir á 10 ára skuldabréfum í Bandaríkjunum hafa meira en tvöfaldast á nokkrum mánuðum þrátt fyrir að Seðlabanki Bandríkjanna hafi nýlega ítrekað fyrirætlanir sínar að halda vöxtum við núll til ársloka 2023.

Þótt bandaríska hagkerfið virðist ætla að rísa mun hraðar á lappir en flest önnur vestræn hagkerfi, einkum samanborið við Evrópu, eru markaðir tvístígandi yfir hvaða áhrif aðgerðirnar munu hafa til lengri tíma á bandarískt efnahagslíf og gengi dollarans. Þótt dollarinn hafi styrkst um 2% á árinu hefur hann veikst um 7% síðastliðið árið og virðast flestir greinendur og markaðsaðilar frekar svartsýnir á lengri tíma horfur hans. Ástæður þess er einkum að finna í hinum gríðarlegu örvunaraðgerðum bandaríska ríkisins, hátt í 6 billjónir bandaríkjadala - um 26% af landsframleiðslu. Aðgerðir sem bætast við umfangsmikil skuldabréfakaup bandaríska seðlabankans og gríðarlegan undirliggjandi fjárlagahalla. Fjárfestar óttast að jafnmikil örvun á hagkerfi sem er að taka hratt við sér muni ekki aðeins leiða til ofhitnunar heldur einnig vaxandi vantrúar á að ríkissjóður hafi bæði getu og vilja til að greiða hinar gríðarlegu skuldir til baka án gjaldfellingar gegnum verðbólgu (svk. „financial repression“).

Aðgerðirnar, sem að miklu leyti fela í sér beinar peningamillifærslur til almennings, eiga að örva innlenda eftirspurn svo fyrirtæki hafi burði til að fjárfesta og ráða fólk sem auki hagvöxt til lengri tíma. Þótt margir virtir hagfræðingar, jafnvel Demókrata megin, efist um ágæti aðgerðanna virðast sumir telja að „leið Demókrata“ sé fordæmi sem stjórnvöld á Íslandi eigi að fylgja – að skeyta litlu um hratt vaxandi skuldir og beita ríkisfjármálum enn frekar til örvunar hagkerfisins.

Vandamálið við það er þó einkum þríþætt:

  • Ísland er lítið opið hagkerfi sem flytur inn flestar varanlegar neysluvörur – enn frekari örvun innlendrar eftirspurnar mun leiða til aukins innflutnings í stað aukinnar fjárfestingar í innlendri framleiðslu.
  • Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans hafa gegnt lykilhlutverki í að mýkja áhrif kreppunnar. Stjórnvöld hafa beitt sértækum úrræðum fyrir bæði heimili og fyrirtæki sem upplifa mikið tekjufall og Seðlabankinn hefur lækkað vexti verulega til að örva innlenda eftirspurn, en rými peningastefnunnar var hér meira en víðast annars staðar við upphaf faraldursins.
  • Við lok seinasta árs var vaxtabyrði hins opinbera á Íslandi hin þriðja hæsta meðal OECD ríkja, um 3% af landsframleiðslu. Frekari hækkun skulda og aukin vaxtabyrði myndi án efa leiða til lækkun lánshæfis Íslands með ófyrirséðum afleiðingum.

Nýbirt álit lánshæfisfyrirtækisins Fitch staðfestir það en í álitinu segir meðal annars að „þingkosningar í ár gætu leitt til fjármálastefnu sem felur í sér að opinberar skuldir lækki hægar“ og að „vísbendingar um að stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum muni ekki takast að stöðva hækkun skuldahlutfalls“ geti, meðal annars, leitt til lækkunar á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins.

20210331 - Hvað ef.png

Hvað ef vextir hækka?

Í því samhengi má velta fyrir sér hvaða áhrif viðsnúningur á vaxtastiginu gæti haft í ljósi nýlegra ummæla Seðlabankastjóra um að „ef ríkið taki ekki fótinn af bensíngjöfinni“ að faraldrinum loknum, þá muni Seðlabankinn þurfa að gera það – reikna má með að í dag liggi „jafnvægisvextir“ bankans í kringum 3,5% (1% jafnvægis raunvextir að viðbættu 2,5% verðbólguálagi).

Samanlagður halli (heildarafkoma) ríkissjóðs á árunum 2021-2026 er áætluð um 1000 milljarða króna en því til viðbótar eru um 360 milljarða króna á gjalddaga á næstu 2 árum – að miklu leyti ríkisvíxlar og stutt ríkisbréf fjármögnuð á lágum vöxtum. Hröð hækkun stýrivaxta vegna ofhitnunar af völdum ríkisfjármála og enn frekari hækkun langtímavaxta vegna lækkun lánshæfis, gæti því leitt til tuga milljarða aukningar í árlegum vaxtakostnaði ríkissjóðs.

Því til viðbótar hefur hlutfall óverðtryggðra húsnæðisskulda heimilanna vaxið mjög undanfarið – úr 24% í 54% á þremur árum. Miðað við meðaltal fljótandi óverðtryggðra húsnæðisvaxta hjá bönkum og lífeyrissjóðum, um 3,4% í dag, myndi vaxtahækkun stýrivaxta upp í „jafnvægisstig“ (þ.e. úr 0,75% í 3,5%) hækka vaxtabyrði þeirra lána um u.þ.b. 80%. Svipaða sögu mætti teikna upp hjá fyrirtækjum sem flest skulda fljótandi óverðtryggða vexti.

Ef vextir taka að hækka hér á landi áður en fjárfesting og atvinnustig verða farin á fullt skrið í hagkerfinu, er ljóst að slík þróun yrði mjög sársaukafull; fyrir ríkisjóð, heimilin og fyrirtækin í landinu.