Forsíða /
Fréttir /
Akkeri á reki?

Akkeri á reki?

Föstudagur 14. maí 2021
Agnar 7.jpg

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.

Verðbólgan í apríl kom mörkuðum í opna skjöldu enda var hækkunin um tvöfalt hærri en hæstu verðbólguspár greinenda höfðu spáð. Ársverðbólga mælist nú 4,6% og síðustu tólf mánuði hefur mátt rekja hátt í helming af verðbólgunni til hækkunar á innfluttum vörum. Það er hins vegar fasteignamarkaðurinn sem nú veldur fjárfestum og Seðlabankanum mestum áhyggjum og segja má að hafi tekið við af krónunni sem „verðbólguvæntinga-skelfir“, því fá bönd virðast halda honum þessa stundina.

Í kjölfarið hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði rokið upp og hefur 5 ára verðbólguálag hækkað úr 2,9% í 3,4% og 10 ára verðbólguálag hækkað úr 2,9% í 3,2%. Væntingar um hækkun stýrivaxta á skuldabréfamarkaði hafa risið snarlega og verðleggja markaðsaðilar að stýrivextir hækki um 0,75% á þessu ári í 1,5%, um 1,75% árið 2022 og verði komnir í 4,5% haustið 2023 (miðað er við að vextir breytist á vaxtaákvörðunardögum bankans árið 2021).

20210514 - Akkeri á reki 2.png

Höfuðverkur Seðlabankans um þessar mundir er sá að ná niður verðbólguvæntingum áður en þær ná að hreiðra um sig í hagkerfinu. Þótt verðbólguvæntingar til næstu ára hafi hækkað nokkuð ætti Seðlabankinn að geta sýnt ákveðið „umburðarlyndi” gagnvart stundarverðbólgu á meðan slakinn í hagkerfinu er jafn mikill, að því gefnu að nægilega sterkar vísbendingar séu um að verðbólgan gangi niður að kúfnum loknum. Í því samhengi horfa seðlabankar gjarnan til „framtíðar verðbólguvæntinga“ sem lesa má úr verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði til 5 ára, að 5 árum liðnum (þ.e. vænt verðbólga á árunum 2026-2031, í dag). Hafa þarf þó í huga að verðbólguáhættuálag getur lyft verðbólguálaginu upp fyrir raunverulegar verðbólguvæntingar í tilfelli „verðbólgulanda“ eins og Íslands, en niður á við í löndum sem eru vön mjög lágri verðbólgu, eins og í Evrópu og Japan.

Fjármálamarkaðir og Seðlabankar horfa gjarnan á framtíðarverðbólguvæntingar sem „kjölfestu” eða „akkeri” verðbólguvæntinga, þegar þeir meta hvort vaxandi verðbólga til skemmri tíma, svo sem vegna hækkunar hrávara, truflana í framleiðslukeðjum eða tímabundinna sveiflna í eftirspurn eftir vöru og þjónustu, leiði til þess að verðbólguvæntingar til framtíðar hækki – þ.e. að verðbólgan festi sig í sessi. Það ætti því að vera sárabót fyrir Seðlabankann að verðbólguvæntingar á þann mælikvarða hafa ekki hækkað frá seinustu verðbólgumælingu og standa þær nú í um 3,0% – þ.e. fjárfestar vænta með öðrum orðum verðbólgu sem er 0,9% yfir verðbólgumarkmiði næstu 5 ár, en um 0,5% yfir verðbólgumarkmiði árin þar á eftir (að áhættuálagi meðtöldu). Þótt hækkun framtíðarvæntinga hafi risið nokkuð á árinu eru þær ekki háar í sögulegu samhengi; í kjölfar kjarasamninga árið 2015 fóru þær í 4,8% og í 4,4% í „WOW-krísunni” árið 2018 og er óhætt að segja að þá hafi kjölfesta peningastefnunnar sannarlega losnað.

20210514 - Akkeri á reki 1.png

Í því samhengi má nefna að í Bandaríkjunum hafa 5 ára verðbólguvæntingar risið í 2,7%, eða 0,7% yfir verðbólgumarkmiði bandaríska seðlabankans, á meðan framtíðarverðbólguvæntingar eru 2,4% – frávikið frá verðbólgumarkmiði bankans er nálægt Íslandi á þann mælikvarða.

Seðlabankinn stendur frammi fyrir snúnu verkefni; þó vaxtahækkanir munu eflaust verða áhrifaríkari en áður í baráttunni við verðbólgu þá er staðan enn mjög brothætt. Í fyrsta lagi er löng leið í átt að jafnvægi á vinnumarkaði og atvinnuleysi enn í sögulegum hæðum. Í öðru lagi gefa kannanir til kynna að fyrirtæki áætli að meðaltali að draga úr fjárfestingum næstu misserin. Í þriðja lagi þarf jafnvægi að nást á húsnæðismarkaði, en slíkt jafnvægi næst ekki nema byggt sé meira og hraðar til að mæta væntri þörf. Aukaverkanir hærri vaxta geta því orðið talsverðar.

Stjórntæki bankans eru þó sem betur fer fleiri en vaxtatækið eitt og sér. Beiting þjóðhagsvarúðartækja sem halda aftur af lánveitingum á fasteignamarkaði ættu að vera áhrifarík leið í baráttunni við verðbólguna. Fjárfestar, skuldarar, heimili og fyrirtæki bíða því spennt eftir að Seðlabankinn sýni spilin í baráttunni við verðbólguna á komandi vaxtaákvörðunarfundi í maí. Sterkari króna í meðbyr ferðaþjónustu, ásamt fjölbreyttum stjórntækjum bankans og hóflegum verðbólguvæntingum í framtíð, ættu að gefa bankanum þau vopn sem hann þarf til að leggja verðbólgudrauginn að velli.