Forsíða /
Fréttir /
Iðunn fjárfestir í EpiEndo Pharmaceuticals ehf.

Iðunn fjárfestir í EpiEndo Pharmaceuticals ehf.

Miðvikudagur 18. ágúst 2021

Framtakssjóðurinn Iðunn, sem rekinn er af Kviku eignastýringu hf., hefur skrifað undir samning um kaup á hlutafé í lyfjaþróunarfyrirtækinu EpiEndo Pharmaceuticals ehf. Iðunn er leiðandi fjárfestir í kaupunum ásamt sænska fjárfestingarfélaginu Flerie Invest og ABC Venture ehf.

EpiEndo hefur á undanförnum árum unnið að þróun lyfs við langvinnum lungnasjúkdómum (COPD) sem byggja á hugmyndum og rannsóknum Friðriks Rúnars Garðarssonar læknis og félaga hans á Landsspítalanum  og Háskóla Íslands um styrkingu á þekjuvef lungna með svokölluðum macroliðum. EP 395 lyfjakandidat EpiEndo, er fyrsta íslenska frumlyfið sem fer í klínískar rannsóknir og eru það tímamót í nýsköpun sem byggir á íslensku hugviti. 

Maria Bech, forstjóri EpiEndo:

Við erum mjög ánægð með að fá góða fjárfesta eins og Iðunni að fyrirtækinu sem leiðandi eigendur og höfum miklar væntingar til þeirra í þeirri vegferð sem við erum á í þróun á frumlyfi gegn langvinnum lungnasjúkdómum (COPD). Fjárfestingin mun aðstoða félagið í að fjármagna klínískar prófanir á lyfinu auk rannsókna á virkni lyfsins á aðra sjúkdóma. 

Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar:

„Nú má segja að Iðunn sé komin á fleygiferð. Fjárfesting Iðunnar í EpiEndo er okkur sérstök ánægja því hún er dæmi um þau tækifæri sem Iðunn hefur sérstakan augastað á. Í kjölfarið munum við skoða fleiri fjárfestingatækifæri af slíkum toga sem henta tilgangi sjóðsins.“

Um Iðunni:

Iðunn framtakssjóður slhf. er sérhæfður framtakssjóður sem leggur áherslu á fjárfestingar á sviði lífvísinda og heilsutækni. Sjóðurinn er 6,7 milljarða króna að stærð eftir fyrstu lokun í mars 2021 en stefnt er að lokun síðari umferð söfnunar áskriftarloforða í byrjun september. Fjárfestingartímabil Iðunnar er 5 ár og einblínir sjóðurinn á fjárfestingar í fyrirtækjum með vandaðar áætlanir um viðskiptaþróun og stjórnargetu til að stýra vexti og undirbúa félögin í næsta fasa á sviði uppskölunar. EpiEndo er önnur fjárfesting Iðunnar en fyrsta fjárfesting Iðunnar var í Coripharma.