Mun svarta spáin rætast?

fimmtudagur 19. ágúst 2021
Agnar 7.jpg

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, skrifar um stöðuna og horfur í efnahagsmálum. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.

Nú þegar sumri tekur að halla og sumarfríum að ljúka, er ágætur tími til að taka stuttlega stöðuna á fjármálamörkuðum, bæði hér heima og erlendis. Hér á landi hefur ávöxtun hlutabréfa verið sérstaklega góð í alþjóðlegum samanburði á árinu, hækkun hlutabréfavísitölunnar (miðað er við vísitölur Kviku eignastýringar) hefur numið ríflega 30%, sú fimmta hækkun í heiminum, samanborið við 10-25% hækkun helstu vísitalna í Bandaríkjunum og Evrópu, á meðan ávöxtun stærstu hlutabréfavísitalna í Asíu hefur verið döpur. Skuldabréfmarkaðurinn hefur haft hægar um sig, íslenska ríkisbréfavísitalan hefur hækkað um 1% á árinu á meðan ríkisskuldabréf þróaðra ríkja hafa lækkað um 1% til 3% að jafnaði á sama tíma.

Sú lækkun á verði ríkisbréfa erlendis, sem kemur fram í hærri ávöxtunarkröfu skuldabréfa, er að miklu leyti birtingarmynd helstu efnahagsfrétta ársins: Mikillar aukningar verðbólgu í Bandaríkjunum og talsvert hraðari efnahagsbata víða en gert var ráð fyrir í upphafi árs vegna hraðari enduropnunar hagkerfa, en einkum og sér í lagi hins bandaríska.

Efnahagsþróun íslenska hagkerfisins á árinu svipar að nokkru til hans bandaríska, hröð enduropnun með sterkri einkaneyslu, mikil hækkun á eignamörkuðum, ekki síst hækkun fasteigna, og aukin verðbólga. Í upphafi árs væntu þess flestir að vöxtum Seðlabanka Íslands yrði haldið óbreyttum í ár en myndu hækka hægt árið 2022 í brothættum efnahagsbata. Sú mynd hefur nú gjörbreyst og verðleggja markaðir nú að Seðlabankinn hækki vexti á 9 af næstu 10 vaxtaákvörðunarfundum sínum, þeim verði einungis haldið óbreyttum í ágúst 2022 og verði komnir í 4% árið 2024!  Til samanburðar verðleggja markaðir í Bandaríkjunum að vöxtum verði lyft af núllinu í ársbyrjun 2023.

Þótt ætla mætti af umræðu hérlendis að sparifjáreigendum sé haldið í vaxtasvelti í sögulega lágum stýrivöxtum, hafa þeir það ansi gott séu þeir tilbúnir að festa fjármuni til millilangs tíma – sem dæmi bera skuldabréf ríkisins til 3 ára í dag hátt í 3% vexti, þrisvar til fjórum sinnum meira en ótryggð innlán og eru kjör íslenska ríkisins á innlendum markaði meira í ætt við vexti brothættra nýmarkaðsríkja en stöndugs vestræns hagkerfis.

Verðbólgan í lykilhlutverki

Áður en svokallað Delta afbrigði kórónaveirunnar mætti til leiks á Vesturlöndum í sumar, voru blikur á lofti í bandaríska hagkerfinu og hið kínverska hafði tekið að hægja á sér verulega. Væntingavísitölur, útlánavöxtur og fjárfestingaráform í þessum lykilhagkerfum heimsins eru á niðurleið og því einn helsti ótti fjárfesta að seðlabanki Bandaríkjanna neyðist til að hækka vexti fyrr en ella vegna aukinnar verðbólgu, sem væri líklegt til að valda usla á eignamörkuðum.

Það hefur því verið jákvætt, bæði hér heima og í Bandaríkjunum, að væntingar neytenda og markaða um verðbólgu í framtíðinni hafa lækkað í áttina að verðbólgumarkmiði á ný og almennt talið ólíklegra að verðbólgan verði sú grýla sem fjárfestar óttuðust á fyrri hluta ársins.

20210819 - Verðbólguálag.png

Til fróðleiks má nefna að á sama tíma og stundarverðbólga mælist nú um 5,2% í Bandaríkjunum, er um 14% af bandarísku verðvísitölunni að hækka um 20%, mest tengt „enduropnun“ hagkerfisins, hækkun á hrávörum eða vegna bresta í framleiðslukeðjum, á meðan restin er einungis að hækka um rúmlega 1% að jafnaði síðasta árið.

Kosningaskjálfti fram undan?

Þótt það vaxtahækkunarferli sem íslenskur skuldabréfamarkaður teiknar upp í dag sé býsna dramatískt, eru allar líkur á að það verði styttra og hægara að óbreyttu. Áhrif svo mikilla og hraðra vaxtahækkana myndu líklega koma fram í sterkari krónu sem myndi kæla útflutningsgreinarnar, tvöföldun á fljótandi útlánavöxtum myndi bremsa einkaneyslu og fjárfestingu atvinnulífsins. Þá er stór og vaxandi hluti skulda ríkissjóðs til skamms tíma - miklar vaxtahækkanir Seðlabankans myndu því þyngja vaxtabyrði ríkissjóðs verulega og leiða til samblands af auknu aðhaldi í ríkisrekstri og skattahækkana. Lækkandi verðbólguvæntingar í sumar ættu þó að gefa Seðlabankanum svigrúm og þolinmæði í þeim efnum nú þegar óvissa hefur aukist á ný vegna Delta afbrigðisins svokallaða. En það styttist í kosningar og ef loforð um frekari skuldsetningu og fjáraustur ríkissjóðs verða ofan á, er allt eins líklegt að „svarta vaxtaspáin“ rætist. Það myndu ekki margir hagnast á því, hvorki fjárfestar, heimilin né fyrirtækin.