Forsíða /
Fréttir /
Kviku Reykjavíkurskákmótið hófst í gær

Kviku Reykjavíkurskákmótið hófst í gær

Föstudagur 27. ágúst 2021

Kviku Reykjavíkurskákmótið – EM einstaklinga í skák hófst í gær 26. ágúst og stendur til 5. september en Kvika eignastýring er aðalstyrktaraðili mótsins ásamt Reykjavíkurborg og ríkisstjórn Íslands. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti mótið og lék fyrsta leik í skák þeirra Gawain Jones og Baltag Iulian.

2021 08 27 - Kvika_RVKSkakmot-6.jpg

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setur mótið.

Til leiks eru skráðir 184 skákmenn frá 36 löndum. Á keppendalistanum eru hvorki fleiri né færri en 70 stórmeistarar en aldrei áður hafa svo margir verið með á Reykjavíkurskákmóti. Nánast allir sterkustu skákmenn landsins taka þátt. Tefldar verða 11 umferðir á 11 dögum við frábærar aðstæður á Hótel Natura.

Reykjavíkurskákmótið hefur farið fram reglulega frá 1964 þar til í fyrra þegar mótið féll niður. Á tveggja ári fresti 1964-2008 og árlega 2009-2019. Aflýsa þurfti mótinu í fyrra með skömmum fyrirvara vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Var mótið þá eitt fyrsta fórnarlamb þess heimsfaraldurs í skákheimum. Það er hins vegar ánægjulegt að mótið núna er eitt af fyrstu stórmótum heims síðan heimsfaraldurinn hófst.

Stigahæstur keppenda er enski stórmeistarinn Gawain Jones og næststigahæstur er armenski stórmeistarinn Gabriel Sargissian, sem er þrefaldur ólympíumeistari í skák.

Ríflega 60 íslenskir skákmenn taka þátt. Þeirra á meðal eru sjö stórmeistarar. Þeirra stigahæstur er Hjörvar Steinn Grétarsson en auk hans eru Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Jóhann Hjartarson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Bragi Þorfinnsson meðal keppenda.

Þar sem mótið er jafnframt Evrópumót einstaklinga ávinna 23 efstu menn mótsins  sér keppnisrétt á Heimsbikarmótinu í skák sem fram fer 2023 svo mikið er í húfi.

Vegna takmarkana verður teflt í fjórum mismunandi sölum í Natura. Áhorfendur geta ekki farið í skáksalina en geta fylgst með skákskýringum hins stórskemmtilega stórmeistar Ivans Sokolovs í bíósalnum – það er óhætt að hvetja alla áhugamenn um skák til að mæta og fylgjast með skákskýringum hans sem verða eflaust bæði mjög áhugaverðar og skemmtilegar. Honum til aðstoðar verða margir af sterkustu skákmönnum landsins sem ekki tefla og má þar nefna stórmeistarana Helga Ólafsson, Þröst Þórhallsson og alþjóðlega meistarann Björn Þorfinnsson.

Auðvelt verður fyrir skákáhugamenn að fylgjast með mótinu í gegnum netið en beinar útsendingar frá helstu skákum sem og skýringar Ivans Sokolov verður að finna á www.reykjavikopen.com.

2021 08 27 - Kvika_RVKSkakmot-2.jpg

Frá vinstri: Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins, og Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu. Agnar er fulltrúi Kviku eignastýringar á mótinu og er hann einn af rúmlega 60 Íslendingum sem tekur þátt í mótinu.

2021 08 27 - Kvika_RVKSkakmot-9.jpg

Katrín Jakobsdóttir leikur fyrsta leik mótsins.

2021 08 27 - Kvika_RVKSkakmot-11.jpg