Freyja framtakssjóður fjárfestir í hverfisteypustarfsemi Berry Global undir nafni ROTOVIA

fimmtudagur 02. júní 2022

freyja - rotovia.png

Freyja framtakssjóður, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, hefur í samstarfi við SÍA IV og lykilstjórnendur gengið frá kaupum á hverfisteypustarfsemi Berry Global Inc. Undir starfsemina eru meðal annars félögin Sæplast og Tempra, sem eru félög með langa og farsæla sögu á Íslandi. Kaupandinn er ROTOVIA hf., nýstofnað félag í eigu framtakssjóðanna Freyju og SÍA IV ásamt lykilstjórnendum. Hverfisteypudeild Berry Global Inc var áður hluti af Promens hf. sem selt var úr landi árið 2015, en félagið var á þeim tíma eitt stærsta fyrirtæki landsins.

ROTOVIA mun hafa sterka stöðu hérlendis og erlendis og þjóna fjölbreyttum hópi viðskiptavina í ýmsum markaðsgeirum en með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Hið nýja félag verður með 14 starfsstöðvar í 10 löndum í Evrópu og Ameríku og hjá því munu starfa alls um 800 manns, þar af um 100 starfsmenn á Íslandi. Undir nýju eignarhaldi mun ROTOVIA halda áfram að byggja upp mikilvæg langtímasambönd við viðskiptavini, fjárfesta enn frekar í sjálfvirkni í framleiðsluferlum og nýsköpun, með áherslu á endurvinnanlegar og endurnýtanlegar vörur.

Velta hinna keyptu eininga er um 18 milljarðar króna, þar af kemur um helmingur frá eigin vörumerkjum sem eru með mjög sterka stöðu á markaði, s.s. Sæplast, Tempra, iTUB og Varibox  og um helmingur kemur frá framleiðslu á ýmsum hverfisteyptum vörum fyrir kröfuharða alþjóðlega viðskiptavini.

“ROTOVIA fellur vel að fjárfestingarstefnu Freyju, en Rotovia er leiðandi á sínu sviði sem stærsta hverfisteypufélag í Evrópu. Félagið hefur lagt áherslu á nýsköpun í sjálfbærni og endurnýtingu hráefna og mun nýr eigendahópur efla þá þróun. Starfsemin hefur skilað af sér sterku sjóðstreymi þrátt fyrir eigendabreytingar og efnahagslegar áskoranir síðustu ár, þökk sé öflugu teymi lykilstjórnenda sem eru einnig hluti af eigendahópnum. Mikil tækifæri felast í því að koma starfsemi, sem áður var hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki, undir nýtt sjálfstætt félag. Næstu verkefni félagsins munu snúa að því að grípa þau tækifæri, ásamt því að halda áfram fjárfestingu í vöruþróun með áherslu á að auka hlutfall endurunnins hráefnis í vörum félagsins.” segir Margit Robertet frá Freyju.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var fjárfestunum til ráðgjafar í kaupferlinu og BBA//Fjeldco veitti lögfræðiráðgjöf.

Sjóður í umsjón Capital Four veitti lánsfjármögnun til kaupanna.