Forsíða /
Fréttir /
Árshlutauppgjör Kviku eignastýringar hf. 2022

Árshlutauppgjör Kviku eignastýringar hf. 2022

Miðvikudagur 21. september 2022

Kvika eignastýring hf. hagnaðist um 648 milljónir króna á fyrstu 6 mánuðum ársins og voru eignir í stýringu 448 milljarðar króna.

Helstu niðurstöður árshlutareikningsins eru þessar:

  • Hagnaður félagsins fyrir skatta nam 648 m.kr. samanborið við 660 m.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Heildartekjur félagsins voru 1.608 m.kr. samanborið við 1.593 m.kr. á fyrri helmingi síðasta árs.
  • Eignir í stýringu voru 448 milljarðar króna samanborið við 432 milljarða á sama tíma árið áður.
  • Kvika eignastýring er næststærsta eignastýringarfélag landsins þegar horft er til eigna í stýringu.
  • Í lok júní voru samtals 47 sjóðir í rekstri hjá félaginu, átta samlagshlutafélög og eitt samlagsfélag.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar:

„Fjölmargar áskoranir hafa komið upp á fyrri hluta þessa árs sem hefur helst einkennst af stríði í Úkraínu og stóraukinni verðbólgu um allan heim. Kvika eignastýring hefur þrátt fyrir það staðið sig vel á krefjandi mánuðum. Hagnaður félagsins nam 648 m.kr. á fyrri helmingi þessa árs. Eignir í stýringu jukust um 16 milljarða króna miðað við sama tíma á síðasta ári. Á þessu ári hafa eignir í stýringu lækkað um rúm 4%. Fyrst og fremst skýrist þetta af neikvæðri ávöxtun á mörkuðum þar sem nettó innflæði hjá Kviku eignastýringu á þessu tímabili voru rúmir 19 milljarðar króna. Ég er virkilega ánægður með starfsfólk Kviku eignastýringar í þeim krefjandi ytri aðstæðum sem hafa verið uppi. Þetta styrkir trú mína á þeirri góðu þjónustu og vöruframboði sem við veitum viðskiptavinum okkar.“

Árshlutareikningur 2022

Um Kviku eignastýring hf.

Kvika eignastýring er leiðandi í eignastýringu og fjárfestingastarfsemi hér á landi. Félagið veitir alhliða fjármálaþjónustu með áherslu á árangur með langtímahagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Kvika eignastýring hentar vel fyrir alla efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Kvika eignastýring leggur áherslu á að veita viðskiptavinum sínum breitt þjónustuframboð til þess að fjárfesta innanlands sem og á erlendum mörkuðum. Meðal þjónustuframboðs má nefna einkabankaþjónustu, sjóðastýringu, framtakssjóði og fjárfestingarráðgjöf ásamt persónulegri þjónustu frá sérfræðingum okkar. Starfsmenn félagsins eru 37 talsins. Kvika eignastýring er dótturfélag Kviku banka hf. og er starfsstöð félagsins í Katrínartúni 2.