Kvika eignastýring hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn. Ráðningarnar koma samhliða auknum umsvifum félagsins og endurspegla þann styrk sem félagið býr yfir.

Frá vinstri: Helena Guðjónsdóttir, Lilja Sólveig Kro og Karvel Steindór Pálmason
Helena Guðjónsdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur í sjálfbærni hjá Kviku eignastýringu. Helena hefur áður unnið í sjálfbærniverkefnum hjá Kviku. Hún er einnig í miðlunarhópi IcelandSIF, samtaka sem vinna að því að efla umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Áður starfaði Helena hjá bresku verslunarkeðjunni Hamleys, mestmegnis í Bretlandi og svo í Tékklandi.
Helena er með B.A. gráðu í mannfræði og fjölmiðlafræði frá Goldsmiths University of London og MBA gráðu frá IESE Business School í Barcelona.
Lilja Sólveig Kro hefur verið ráðin sem sérfræðingur hjá stofnanafjárfestum Kviku eignastýringar. Lilja mun koma að greiningarvinnu félagsins og er ráðning hennar liður í að styrkja enn frekar greiningar, eignastýringu og þjónustu við viðskiptavini. Áður starfaði Lilja á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands auk þess sem hún kenndi hagrannsóknir við Háskóla Íslands.
Lilja er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í hagfræði frá Stockholm University. Einnig leggur hún stund á nám í verðbréfaviðskiptum.
Karvel Steindór Pálmason hefur verið ráðinn sem sérfræðingur kreditsjóða hjá Kviku eignastýringu. Karvel hóf störf á fjármálamarkaði árið 2008. Hann starfaði sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Landsbankans á árunum 2008-2015, sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Virðingar frá 2015-2017, við fyrirtækjarekstur, fjármögnun og í fjárfestingum til 2020 og í hagdeild Marel hf. frá 2020-2022.
Karvel er með BA gráðu í Stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er í Executive MBA námi við UHI háskólann í Skotlandi.
Þau hafa öll hafið störf.