Forsíða /
Fréttir /
Áskoranir í flugrekstri

Áskoranir í flugrekstri

Fimmtudagur 03. nóvember 2022
Orvar - KVIKA portraits2861.jpg

Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, ræðir við Innherja um stöðu og horfur flugfélaga. Fréttin birtist í dag á Innherja.

Örvar bendir á að flugfélög hafi að undanförnu þurft að glíma við fjölda áskorana eins og ferðatakmarkanir, hátt eldsneytisverð, versnandi hagvaxtarhorfur og minni ferðavilja fólks vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

„Flugfélögin hafa mætt þessum áskorunum með mismunandi hætti og því er ekki óeðlilegt að gengisþróun hafi verið ólík á milli félaga að undanförnu. Þar að auki hafa félögin ólíka fjármagnsskipan sem og mismunandi áherslur í leiðakerfum og því getur samanburður á árangri evrópskra flugfélaga verið vandasamur,“ segir hann í samtali við Innherja.

Á einu ári hefur Icelandair hækkað um þrjú prósent á einu ári og Lufthansa hefur hækkað um 17 prósent. Á sama tíma hefur til dæmis Wizz Air lækkað um 61 prósent, SAS um 53 prósent og easyJet um 45 prósent, samkvæmt könnun Innherja.

Örvar Snær segir að SAS eigi í fjárhagsörðugleikum og hafi meðal annars sótt um heimild fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu hjá bandarískum dómstólum. Finnair eigi í vandræðum með Asíuflug vegna lokunar á lofthelgi Rússlands en ekki síður vegna sóttvarnaraðgerða í Kína. „Wizzair og easyJet sem sérhæfa sig í styttri flugum innan Evrópu eru að taka skell vegna ástandsins á meginlandinu,“ segir hann.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði efnahagssamdrætti í Þýskalandi og á Ítalíu á næsta ári í nýlegri efnahagsspá. 

Örvar segir að líklegt sé að verri hagvaxtarhorfur hafi áhrif á ráðstöfunartekjur heimila og það ætti að öðru óbreyttu að draga úr ferðavilja fólks. „Flugfélög sem fljúga eingöngu innan Evrópu ættu því að verða fyrir mestu áhrifunum. Viðskiptalíkön Icelandair og Play byggja á tengiflugi milli Evrópu og Ameríku. Þau eru því ekki eins berskjölduð fyrir versnandi horfum í Evrópu,“ segir hann.

Örvar segir að hagvaxtarhorfur séu betri á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Þess vegna megi reikna með að Íslendingar muni halda áfram að ferðast mikið. Ísland tróni auk þess á toppi Global Peace vísitölunnar yfir öruggustu lönd í heimi. Það gæti laðað að erlenda ferðamenn. Auk þess hafi bæði Icelandair og Play verið með „góða sætanýtingu“ samanborið við keppinauta sína síðustu mánuði.

Ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir skemmstu greiningu fyrir Ferðamálastofu. Þar er gert ráð fyrir svipuðum fjölda erlendra ferðamanna á næsta ári og árið 2018 þegar hingað komu yfir 2,3 milljónir ferðamanna. Á árinu 2025 er reiknað með þremur milljónum ferðamanna.

Örvar segir að Icelandair hafi birt „sterkt uppgjör“ fyrir þriðja ársfjórðung. Afkoman hafi verið á pari við árin 2018 og 2019 auk þess sem rekstrarkostnaður án eldsneytis hafi lækkað hlutfallslega milli fjórðunga.

Athygli vekur að á sama tíma og Icelandair hefur hækkað um þrjú prósent á árinu hefur Play lækkað um 42 prósent. 

„Play er á öðrum stað en Icelandair,“ útskýrir Örvar, „félagið er með sex vélar og fókusinn er fyrst og fremst á að lækka einingakostnað. Þó svo að félagið geri ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs þá er 2023 það ár sem mestu máli skiptir. Þá verður félagið komið með tíu vélar, sem er sá fjöldi sem þarf til að leiðakerfið fái að njóta sín.“