Kvika eignastýring hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn. Félagið er leiðandi í eigna- og sjóðastýringu á Íslandi þar sem áhersla er lögð á langtímahugsun og árangur viðskiptavina og eru þessar ráðningar liður í því að styrkja starfsemi félagsins enn frekar.

Frá vinstri: Andri Már Rúnarsson, Helgi Magnússon og Sveinn Þórarinsson
Andri Már Rúnarsson hefur verið ráðinn sjóðstjóri skuldabréfasjóða hjá Kviku eignastýringu. Andri Már starfaði áður í eignastýringu og fjárfestatengslum hjá Sjóvá. Auk þess hefur Andri Már starfað í áhættustýringu hjá ABN AMRO og hjá ASML í fjárstýringu en það er stærsta fyrirtæki Hollands.
Andri Már er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. heiðursgráðu í fjármálum og áhættustýringu frá Vrije Universiteit Amsterdam. Andri hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Helgi Magnússon hefur verið ráðinn sérfræðingur í eignastýringu stofnanafjárfesta hjá Kviku eignastýringu. Áður starfaði Helgi sem vörueigandi markaðs- og verðbréfalausna hjá Íslandsbanka. Helgi hefur einnig starfað sem sérfræðingur erlendra sjóða hjá Stefni og í greiningardeild HSBC Global Asset Management.
Helgi er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá HR, M.Sc. gráðu í hagnýtri stærðfræði frá London School of Economics. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og er CFA handhafi.
Sveinn Þórarinsson hefur verið ráðinn inn í sjóðastýringarteymi hlutabréfasjóða hjá Kviku eignastýringu. Áður starfaði Sveinn sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum Arctica Finance. Sveinn stýrði hlutabréfagreiningum hjá Landsbankanum í hagfræðideild og markaðsviðskiptum Landsbankans frá árinu 2013 en Sveinn hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2002.
Sveinn er með B.Sc. í fjármálum frá Háskóla Íslands og M.Sc. í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum frá Gothenburg University í Svíþjóð.
Þeir hafa allir hafið störf.