Ársreikningur Kviku eignastýringar hf. 2022

þriðjudagur 09. maí 2023

Kvika eignastýring hf. hagnaðist um 942 milljónir króna fyrir skatta á árinu 2022 og voru heildarrekstrartekjur félagsins 2.915 milljónir króna.

Eignir í stýringu námu alls 452 ma.kr. í árslok, samanborið við 468 ma.kr. árið áður. Sjóðir og söfn í stýringu félagsins fóru ekki varhluta af lækkandi eignaverði í kjölfar erfiðleika á eignamörkuðum á árinu. Þrátt fyrir það var nettó jákvætt innflæði inn í sjóði og söfn félagsins og jók Kvika eignastýring markaðshlutdeild sína í opnum sjóðum fyrir almenna fjárfesta á árinu 2022 um 20%, úr 8,7% í 10,4%.

Helstu niðurstöður ársreiknings 2022 eru þessar:

  • Hagnaður ársins fyrir skatta nam 942 milljónum króna samanborið við 1.113 milljónir króna árið áður.
  • Hreinar rekstrartekjur voru 2.913 milljónir króna samanborið við 3.054 milljónir króna árið 2021.
  • Eigið fé félagsins í árslok var 3.183 milljónir króna.
  • Eignir í stýringu í árslok námu 452 milljörðum króna en þær lækkuðu um 16 milljarða króna á árinu 2021 eða um 3%.
  • Í árslok voru 56 sjóðir í rekstri hjá félaginu, þar af 8 samlagshlutafélög og eitt samlagsfélag.

Stjórn Kviku eignastýringar hefur lagt fram tillögu á aðalfundi um að greiddur verði 750 m.kr. arður til hluthafa, en arðgreiðsla árið 2022 nam alls 1.265 milljónum króna. Kvika eignastýring hf. er dótturfélag Kviku banka hf. og hluti af Kviku samstæðunni.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar:

„Árið 2022 var gott ár hjá Kviku eignastýringu þrátt fyrir áskoranir á fjármálamörkuðum. Ánægjulegt er að sjá að grunnrekstur félagsins heldur áfram að styrkjast og jákvætt innflæði var í sjóði og söfn í stýringu félagsins þrátt fyrir neikvæða ávöxtun. Í lok árs stigum við mikilvæg skref í stafrænni vegferð félagsins með útgáfu smáforritsins Kvika verðbréf sem gerir viðskiptavinum kleift að fá góða yfirsýn yfir verðbréfasöfn sín með einföldum hætti. Þessi árangur veitir okkur bjartsýni og kraft til þess að halda áfram að veita viðskiptavinum fjölbreytt vöruframboð og framúrskarandi þjónustu.“

Ársreikningur 2022