Forsíða /
Framtakssjóðir /
Fréttir /
Samantekt á sjálfbærniskýrslu framtakssjóðasviðs Kviku eignastýringar

Samantekt á sjálfbærniskýrslu framtakssjóðasviðs Kviku eignastýringar

Miðvikudagur 09. ágúst 2023

Framtakssjóðasvið Kviku eignastýringar gaf nýlega út sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2022 til fjárfesta í framtakssjóðunum. Er þetta í þriðja sinn sem félagið sendir fjárfestum slíka skýrslu. Skýrslan er eingöngu ætluð fjárfestum sjóðanna en skýrslan fjallar um frammistöðu fyrirtækja í eignasafni er varðar UFS þætti (þ.e. umhverfisþætti, félagsþætti og stjórnarhætti) auk umfjöllunar um sjálfbærnivegferð Rotovia, nýjustu fjárfestingar Freyju framtakssjóðs. Eftirfarandi er útdráttur úr skýrslunni.

Ábyrgar fjárfestingar

Kvika eignastýring hefur markað sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og hefur Kviku samstæðan verið aðili að UN PRI síðan 2020. Félagið er einn reynslumesti rekstraraðili framtakssjóða á Íslandi og var fyrsti framtakssjóðurinn stofnaður árið 2008. Framtakssjóðasvið félagsins rekur nú fjóra framtakssjóði, Auði I, Eddu, Freyju og Iðunni, en sjóðirnir nýta tækifæri sem felast í langtímafjárfestingu í óskráðum fyrirtækjum. Sjóðirnir eru áhrifafjárfestar sem leggja áherslu á að styðja stjórnendur með markvissum hætti í að bæta rekstur og árangur félaga í eigu sjóðanna. Þeir hvetja félögin til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytni í stjórnun og huga að umhverfismálum. Áherslur sjóðanna á samfélagslega ábyrgð á við í öllu fjárfestingarferlinu, allt frá mati á fjárfestingakostum, sem hluti af áreiðanleikakönnun fyrir fjárfestingu, yfir eignarhaldstímann með markmiðasetningu og eftirfylgni og að lokum í undirbúningi fyrir sölu. Áherslurnar fylgja síðan félögunum eftir sölu með verðmætari, öflugri og samfélagslega ábyrgari félögum.

Frá upphafi hafa framtakssjóðir Kviku eignastýringar lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar og beitt sér fyrir því að fyrirtækin sem fjárfest er í séu samfélagslega ábyrg og setji sér skýr UFS markmið. Í þeim tilgangi stóð framtakssjóðasvið fyrir sjálfbærni- og UFS vinnustofu í janúar 2023 fyrir stjórnendur fyrirtækja í eignasafni sjóðanna. Á vinnustofunni fóru sérfræðingar á sviði sjálfbærni, nýsköpunar og hringrásarhagkerfis frá Lab21st yfir breytingar á regluverki varðandi sjálfbærni og upplýsingagjöf fyrirtækja, góðar starfsvenjur og helstu upplýsingar um sjálfbærni í rekstri félaganna. Vinnustofunni var skipt í þrjú þemu þar sem rætt var um kerfishugsun og mismunandi viðskiptamódel hringrásarhagkerfisins, farið yfir UFS grundvallaratriði, breytt lagaumhverfi og ýmis atriði til að hjálpa félögum að innleiða nýsköpun í tengslum við sjálfbærni.

Sjálfbærnivegferð Rotovia

Rotovia er eitt af fyrirtækjunum í eignasafni framtakssjóðanna sem hefur nýtt sér sjálfbærniráðgjöf Lab21st, en Rotovia er alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki og er eitt stærsta hverfisteypufélag í heimi. Félagið þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina í mismunandi atvinnugreinum með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Í kjölfar fjárfestingar framtakssjóðsins Freyju í Rotovia var farið í stefnumótunarvinnu þar sem framtíðarsýn og vaxtarstefna félagsins til ársins 2028 var mótuð með sjálfbærni í forgrunni. Markmið félagsins er að 20% af endurunnu hráefni verði í framleiddum vörum árið 2028. Þá mun Rotovia taka upp nýtt skilakerfi, þar sem viðskiptavinir skila til baka gömlum og úr sér gengnum vörum til endurvinnslu. Þetta mun bæta hringrás í vöruframboði félagsins og auka sjálfbærni.

Fjárfesting Freyju í Rotovia var fjármögnuð með lánsfjármögnun þar sem lánakjör félagsins eru meðal annars tengd ákveðnum UFS viðmiðum og er það fyrsta fjárfesting framtakssjóðasviðs sem fjármögnuð er með slíkum hætti. UFS markmiðin sem voru samþykkt skuldbinda Rotovia til að draga úr heildarorkunotkun og vægi jarðefnaeldsneytis í framleiðslu sem og að auka vægi endurunnins hráefnis í vörum félagsins.


Aukin áhersla á sjálfbærni hjá Kviku eignastýringu

Á liðnu ári, samhliða verkefnum framtakssjóðasviðs og í takt við sjálfbærnivegferð félagins, réð Kvika eignastýring til sín sérfræðing í sjálfbærni í fullt starf og hefur félagið boðið starfsmönnum sínum á námskeið um ábyrgar fjárfestingar á vegum UN PRI. Einnig var stofnaður sérstakur UFS vinnuhópur sem samanstendur af fulltrúum frá hverju sviði félagsins, þar á meðal frá framtakssjóðasviði.