Með stefnu um ábyrgar fjárfestingar hefur Kvika eignastýring einsett sér að tekið sé mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir. Á það við um allt fjárfestingarferlið, frá vali og mati á fjárfestingarkostum og reglulega yfir eignarhaldstímann. Þá er hugað að UFS-þáttunum í vöruþróun og nýjungum, sem stuðla að sjálfbærni, og einföldun og styrkingu innviða fjármálaþjónustu í samræmi við nýja sjálfbærnistefnu Kviku.
Þróun áherslna á sjálfbærni Kviku eignastýringar má rekja allt til ársins 2008 þegar fyrsti framtakssjóðurinn í rekstri félagsins, þar sem tekið er mið af UFS-þáttum í fjárfestingarferlinu, var stofnaður. Frá árinu 2017 hefur enn frekari þróun átt sér stað:

Áherslur 2022
Helstu verkefni á árinu 2022 sem falla undir stefnu Kviku eignastýringar um ábyrgar fjárfestingar og áherslur sjálfbærnistefnunnar er undirbúningur UFS-miðaðra sjóða sem meðal annars stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þá var unnið áfram að þróun á UFS-flokkunaraðferð fyrir innlent eignasafn Kviku eignastýringar. Samhliða þróun á aðferðafræðinni var ráðið í nýtt stöðugildi á sviði sjálfbærni til þess að vinna að málaflokknum innan Kviku eignastýringar.
Komið var á fót sjálfbærniráði sem er vettvangur starfsfólks fyrir umræðu um mál er varða sjálfbærniáhættu og UFS í tengslum við vöruþróun. Sjálfbærniráðið annast einnig eftirlit og styður við verklag Kviku eignastýringar á sviði sjálfbærni. Kvika eignastýring hóf vinnu við að reikna út fjármagnaða losun gróðurhúsalofttegunda með aðferðafræði PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials) á árinu. Horft hefur verið til eignasafns verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, auk safna stofnanafjárfesta í eignastýringu, miðað við lok árs 2021. Þar á meðal eru fjárfestingar í skráðu hlutafé og skuldabréfum fyrirtækja og ríkisskuldabréfum. Haldið verður áfram með vinnuna á árinu 2023.
UFS-áhættumat og flokkun eigna
UFS-flokkunaraðferð Kviku eignastýringar byggir á atvinnugreinamiðuðu áhættumati sem félagið notar til að meta innlenda eignasafnið sitt, út frá því hversu útsettar eignir eru fyrir UFS-áhættuþáttum og hvaða aðgerðir þarf að ráðast í til að lágmarka sjálfbærnitengda áhættu.
Áhættumatið nýtist einnig í samtali við fjárfesta og fyrirtæki á markaði og við innleiðingu UFS-þátta í fjárfestingarferli Kviku eignastýringar. Aðferðafræði við framkvæmd áhættumatsins hefur verið skjalfest og er miðað við að ferlinu verði fylgt eftir til hlítar á nýju ári.

UFS-áhættumatið má nota til að meta íslenska útgefendur skráðra og óskráðra verðbréfa að undanskildum sveitarfélögum, ríki og rekstraraðilum sjóða. Sem stendur nær aðferðafræðin ekki til útgefenda erlendra verðbréfa en stefnt er að því að útvíkka gildissvið hennar á næstu misserum. Aðferðafræðin er í stöðugri þróun vegna aukins aðgengis að gögnum, breytinga í regluverki og umbótavinnu.
Þó svo að fyrirtæki birti í auknum mæli UFS-miðaðar upplýsingar eru fyrir hendi áskoranir sem tengjast öflun og mati á áreiðanleika slíkra upplýsinga. Búast má við því að gagnaaðgengi verði betra og upplýsingar verði á stöðluðu formi í auknum mæli samhliða gildistöku nýrra sjálfbærnimiðaðra löggjafa á Íslandi.
Framtakssjóðir
Kvika eignastýring rekur fjóra framtakssjóði sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum til lengri tíma en þeir eru Auður I, Edda, Freyja og Iðunn.

Í gegnum framtakssjóðina er lögð áhersla á stuðning við stjórnendur félaga sem fjárfest er í. Það er gert með markvissum hætti til að bæta rekstur þeirra og árangur. Félögin eru hvött til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytileika í stjórnun og huga að umhverfismálum.
Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð er höfð til hliðsjónar í öllu fjárfestingarferli framtakssjóðanna, allt frá mati á fjárfestingarkostum yfir eignarhaldstímann og í undirbúningi á sölu fyrirtækjanna.

Markvisst er haldið utan um lykilupplýsingar varðandi sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í eignasafninu hverju sinni. Framtakssjóðasvið Kviku eignastýringar birtir reglulega sjálfbærniupplýsingar til hagaðila í formi UFS-skýrslu og í umfjöllun í ársskýrslu einstakra sjóða.
Nánar um sjálfbærni upplýsingar félagsins má nálgast í sjálfbærniskýrslu Kviku:
Sjálfbærniskýrsla Kviku