Forsíða /
Um Kviku eignastýringu /
Sjálfbærni /
Ábyrgar fjárfestingar 2023

Ábyrgar fjárfestingar 2023

Sterkir innviðir og verðmætasköpun


Kvika eignastýring

Stöðugt er unnið að því að samþætta sjálfbærni betur inn í starfsemina og var það meðal annars haft að leiðarljósi þegar farið var í stefnumótunarvinnu félagsins á árinu 2023. Þar voru áherslur í sjálfbærni mótaðar út frá sjálfbærnistefnu Kviku sem hluti af heildarstefnu félagsins. Innan Kviku eignastýringar hefur verið starfræktur UFS-vinnuhópur sem skilar sér í auknum umræðum og sameiningu verkefna á sviði sjálfbærnimála þvert á starfseiningar. Á árinu átti sér einnig stað undirbúningur á þróun nýrra UFSmiðaðra sjóða til þess að mæta aukinni eftirspurn viðskiptavina eftir fjárfestingarkostum með UFSáherslum. Þá var umfangsmikil vinna við innleiðingu á SFDR og Flokkunarreglugerðinni.  Fræðsla starfsfólks er mikilvægur þáttur í skilvirkri innleiðingu UFS-þátta í fjárfestingarákvarðanir og haldin voru fræðsluerindi fyrir starfsfólk um lagaumgjörð ESB með tilliti til sjálfbærni þar sem sérstaklega var farið yfir nýjustu uppfærslu MIFID-reglugerðarinnar (Markets in Financial Instruments Directive II). Breytingarnar veita fjárfestum tækifæri til að koma óskum sínum um sjálfbærni á framfæri en með aukinni upplýsingagjöf um umhverfislega sjálfbæra atvinnustarfsemi ásamt auknu gagnsæi frá aðilum á fjármálamarkaði um vörur sínar og þjónustu á að gera það kleift að óskir fjárfesta með tilliti til sjálfbærni séu uppfylltar. Einnig var vinnustofa haldin í október 2023 með það að markmiði að auka umræðu og þekkingu á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og stýringu á sjálfbærniáhættu.


Sjálfbærniáhættustefna

 Ný sjálfbærniáhættustefna Kviku eignastýringar var samþykkt á árinu 2023 en þar er lýst hvernig Kvika eignastýring samþættir sjálfbærniáhættu inn í fjárfestingarákvarðanir og -ráðgjöf. Stefnan tekur mið af skilgreiningu SFDR á sjálfbærniáhættu og tekur tillit til sjálfbærnistefnu Kviku eignastýringar, stefnu Kviku eignastýringar um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbærniáhætturamma Kviku. Í stefnunni eru gerð skil á helstu áhættuþáttum sem falla undir sjálfbærniáhættu en það eru umhverfis- og félagslegir þættir sem og stjórnarhættir fyrirtækja sem fjárfest er í.


Framtakssjóðir Kviku eignastýringar

Fyrsti framtakssjóður Kviku eignastýringar var stofnaður árið 2008 en framtakssjóðirnir eru nú fjórir og hafa leitt hátt í 25 ma.kr. fjárfestingu í 25 fyrirtækjum. Framtakssjóðirnir eru Auður I, Edda, Freyja og Iðunn. 

Framtakssjóðirnir eru áhrifafjárfestar sem leggja áherslu á að styðja stjórnendur með markvissum hætti í að bæta rekstur og árangur félaganna með langtímaávöxtun og sjálfbærni að leiðarljósi. Kvika eignastýring hvetur félög sem fjárfest er í til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytni í stjórnum og huga að umhverfismálum. 

Til þess að efla þekkingu fyrirtækjanna, sem fjárfest hefur verið í, á málefnum tengdum sjálfbærni var haldin sjálfbærnivinnustofa í janúar 2023 með sérfræðingum frá Lab21st. Forstjórar, fjármálastjórar og sjálfbærnifulltrúar 11 fyrirtækja í eigu framtakssjóðanna tóku þátt í vinnustofunni. Farið var yfir tækifæri tengd sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu sem og breytingar á löggjöf þegar kemur að sjálfbærni og upplýsingagjöf fyrirtækja.

Sérstök sjálfbærniskýrsla framtakssjóða Kviku eignastýringar er gefin út árlega til fjárfesta í sjóðunum en þar eru meðal annars gerð skil á frammistöðu sjóðanna með tilliti til ákveðinna UFS-þátta. Ánægjulegt er að greina frá því að yfir 80% af fyrirtækjunum eru með aðgerðir til að auka vellíðan starfsmanna og yfir 60% mæla kolefnisspor sitt. Hlutfall þeirra sem hafa innleitt jafnlaunastefnu er yfir 70% og hjá 45% félaganna eru kvenkyns forstjórar. Sjálfbærniskýrslan fyrir árið 2022 var þriðja slíka skýrslan sem framtakssjóðirnir senda frá sér til fjárfesta


UFS-áhættumat

Hjá Kviku eignastýringu eru langtímahagsmunir í þágu viðskiptavina hafðir að leiðarljósi. Í því felst að meðal annars er tekið tillit til málefna sem snerta UFS-vinnu hjá þeim félögum sem fjárfest er í. Í takt við nýja sjálfbærniáhættustefnu auk stefnu félagsins um ábyrgar fjárfestingar hefur atvinnugreinamiðað UFSáhættumat, einnig kallað sjálfbærniáhættumat, Kviku eignastýringar verið þróað enn frekar á árinu. Sú vinna tók tillit til nýrra krafna í regluverki og uppfærslu á aðferðafræðinni. UFS-áhættumatið var sett fram í þeim tilgangi að meta sjálfbærniáhættu innlends eignasafns Kviku eignastýringar. Gildissvið þess hefur verið íslenskir útgefendur skráðra og óskráðra verðbréfa að undanskildum sveitarfélögum, ríki og rekstraraðilum sjóða. Á árinu 2023 var unnið að því að víkka gildissvið UFS-áhættumatsins þannig að nú er hægt að varpa því á útlánastarfsemi með því að taka tillit til atvinnugreinamiðaðra áhættuþátta. Við gerð áhættumata er horft til mismunandi atriða þar sem þau eru ólík eftir eignaflokkum og fjárfestingarteymum. UFS-áherslur geta átt við í öllu fjárfestingarferlinu, það er frá athugun á fjárfestingarkostum, við áreiðanleikakönnun og yfir eignarhaldstímann.