Upplýsingar og reglur félagsins

Lög um fjármálafyrirtæki

Kvika eignastýring hf. er sjálfstæð fjármálastofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og fellur því undir gildissvið laganna. Tilgangur laganna er að tryggja að fjámálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.

Lög um hlutafélög

Kvika eignastýring hf. er hlutafélag og fellur því undir gildissvið laga um hlutafélög nr. 2/1995. Reglur hlutafélagalaga innihalda m.a. réttarreglur sem lúta að starfsemi fyrirtækja, hlutafé, hlutabréfum, stjórnskipulagi, hluthafafundum, endurskoðun og ábyrgð stjórnenda.

Lög um verðbréfasjóði og lög um sérhæfða sjóði

Kvika eignastýring hf. hefur m.a. starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði og er með starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020. Framangreind lög taka til starfsemi og reksturs verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða. Kvika eignastýring hf. rekur ýmsa slíka sjóði og innihalda lögin m.a. réttarreglur sem lúta að starfsemi sjóða, hlutdeildarskírteina, réttindum hlutdeildarskírteinishafa og stjórnskipulagi svo dæmi séu nefnd.

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, sem gilda m.a. um fjármálafyrirtæki. Markmið laganna er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Lögin gera kröfu um að eftirlitsskyldir aðilar þekki deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi. Lögin byggja á grunni eldri laga en fela þó í sér talsverðar breytingar og leggja þyngri skyldur á fjármálafyrirtæki sem hafa áhrif á viðskiptamenn.  SFF hefur gefið út upplýsingaefni þar sem fram koma helstu breytingar sem lögin koma til með að hafa fyrir viðskiptamenn. Efnið er aðgengilegt hér fyrir neðan.

Upplýsingablað SFF fyrir einstaklinga

Upplýsingablað SFF fyrir lögaðila

Viðskipti með fjármálagerninga

Þann 1. september 2021 tóku gildi lög um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021.  Með lögunum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga og MiFIR reglugerð um sama efni einu nafni jafnan nefnt MiFID 2 regluverkið. Með innleiðingu MiFID 2 regluverksins í íslenskan rétt gilda nú sömu reglur um fjárferstavernd, gagnsæi í viðskiptum og fleira sem viðkemur viðskiptum með fjármálagerninga hér á landi og annars staðar í Evrópu.

Í tilefni lagasetningarinnar hefur Kvika eignastýring uppfært viðskiptaskilmála vegna verðbréfaviðskipta sem bera nú heitið Skilmálar Kviku eignastýringar hf. vegna fjárfestingarþjónustu. Þá hefur félagið uppfært upplýsingar um flokka fjárfesta og lýsingu á eðli og áhættu fjármálagerninga auk þess sem nú eru veittar ákveðnar upplýsingar um kostnað og gjöld vegna viðskipta með fjármálagerninga.

Félög með náin tengsl við Kviku eignastýringu hf. sbr. 5. gr. skilmála bankans vegna fjárfestingarþjónustu eru eftirfarandi:

  • Kvika eignastýring hf.
  • Kvika banki hf., móðurfélag Kviku eignastýringar hf.
  • Akta sjóðir hf., móðurfélag á 18,6% hlut í félaginu.

Eiginleikar og áhætta fjármálagerninga

Flokkar fjárfesta

Upplýsingagjöf vegna áhættu tengdri sjálfbærni

Með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, voru ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 („SFDR“) innleidd í íslenskan rétt. SFDR leggur skyldur á aðila á fjármálamarkaði að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir sem og í ráðgjöf og hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til neikvæðra áhrifa á sjálfbærniþætti við fjárfestingarákvarðanir.

Samþætting sjálfbærniáhættu við fjárfestingaákvarðanir (sbr. 3.gr SFDR)

Áhætta tengd sjálfbærni er skilgreind sem atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar sbr. 22. tölul. 2.gr. SFDR.

Þær upplýsingar sem ber að birta eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga þær því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt er fjárfestum áður en samningur er gerður.

Kvika eignastýring hefur gefið út stefnu í samræmi við 3.gr. SFDR þar sem félagið lýsir því hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvörðunarferlið.

Sjálfbærniáhættustefna 

Yfirlýsing varðandi neikvæð áhrif fjárfestingaákvarðana á sjálfbærniþætti (e. Principal Adverse Impact on sustainability factors eða „PAI“) (sbr. 4.gr. SFDR)

Sjálfbærniþættir eru skilgreindir sem umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum og mál sem varða baráttu gegn spillingu og mútum, sbr. 24. tölul., 2. gr. SFDR. Með neikvæðum áhrifum er almennt átt við helstu neikvæðu áhrif fjárfestingarákvarðana á þessa þætti.

Kvika eignastýring hefur gefið út yfirlýsingu í samræmi við 4. gr. SFDR þar sem félagið lýsir því hvernig og hvort tekið er tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingaákvarðana á sjálfbærniþætti.

Yfirlýsing um neikvæð áhrif á sjálfbærniþætti

Samþætting sjálfbærniáhættu í starfskjarastefnu (sbr. 5.gr. SFDR)

Kvika eignastýring hefur gefið út yfirlýsingu í samræmi við 5. gr. SFDR sem geymir upplýsingar um hvernig starfskjör eru tengd sjálfbærniáhættu.

Yfirlýsing vegna starfskjarastefnu

Lagalegur fyrirvari vegna vefsíðu

Upplýsingar á vefsíðu Kviku eignastýringar hf. eru birtar samkvæmt bestu vitund Kviku eignastýringar hf. á hverjum tíma. Kvika eignastýring hf. ábyrgist ekki réttmæti upplýsinganna hvort sem þær koma frá félaginu eða þriðja aðila. Upplýsingarnar kunna að breytast án fyrirvara.

Upplýsingar á vefsíðu Kviku eignastýringar hf. eru almenns eðlis og fela ekki í sér tilboð eða ráðleggingar um kaup eða sölu fjármálagerninga. Notendur vefsíðunnar bera einir ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum sem teknar eru á grundvelli þeirra upplýsinga sem birtast á vefsíðunni. Kvika eignastýring hf. ber hvorki ábyrgð á tjóni sem rekja má til upplýsinga sem birtast á vefsíðu félagsins né heldur á tjóni sem rekja má beint eða óbeint til notkunar á vefsíðu félagsins. Kvika eignastýring hf. ber heldur ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota vefsíðuna um lengri eða skemmri tíma.

Kvika eignastýring hf. á höfundarrétt á upplýsingum sem birtast á vefsíðunni nema annað sé tekið fram eða verði leitt af eðli máls. Óheimilt er að dreifa upplýsingunum, afrita þær eða nýta með öðrum hætti án skriflegs samþykkis Kviku eignastýringar hf.

Viðskipti með fjármálagerninga eru áhættusöm í eðli sínu. Verðbreytingar í fortíð gefa ekki endilega vísbendingu um verðbreytingar í framtíð. Kvika eignastýring hf. hvetur viðskiptavini sína til að afla sér upplýsinga um eðli verðbréfaviðskipta og eftir atvikum annað sem viðkemur verðbréfaviðskiptum hjá ráðgjöfum félagsins.

Lagalegur fyrirvari vegna tölvupósts

Tölvupóstar og viðhengi sem send eru frá netföngum skráðum á Kviku eignastýringu hf. kunna að innihalda trúnaðarupplýsingar og/eða einkamál og eru eingöngu ætluð skráðum viðtakendum. Sé efni tölvupósts og viðhengja ótengt starfsemi Kviku eignastýringar hf. er sendandi einn ábyrgur. Kvika eignastýring hf. vekur athygli á því að hvers konar upplýsingagjöf, afritun eða dreifing þeirra upplýsinga sem fram koma í tölvupóstum og viðhengjum er óleyfileg og kann að varða við lög. Sért þú ekki réttur viðtakandi tölvupóstsins ertu vinsamlega beðinn um að tilkynna sendanda að þér hafi borist þessi tölvupóstur fyrir mistök, að því loknu að eyða tölvupóstinum og viðhengjum hans, ef einhver eru, án þess að geyma afrit, samanber lagaskyldu þar að lútandi skv. 9. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Kvika eignastýring hf. ber ekki ábyrgð á rangri eða ófullgerðri sendingu upplýsinganna sem tölvupósturinn inniheldur, né heldur á töfum á afhendingu hans eða tjóni sem kann að verða á tölvukerfi móttakanda. Kvika eignastýring hf. ábyrgist hvorki öryggi tölvupóstsins né að hann sé laus við vírusa eða að íhlutun þriðja aðila hafi ekki átt sér stað.

Upplýsingar um fyrirtæki eða fjármálagerninga hafa eingöngu upplýsingagildi og fela ekki í sér tilboð eða ráðleggingar um kaup eða sölu verðbréfa eða þátttöku í fjárfestingum.

Upptaka símtala, geymsla og vistun gagna

Til að tryggja öryggi viðskiptamanns og félagsins er viðskiptamanni kunnugt um að viðskiptasímtöl við félagið kunna að vera hljóðrituð án sérstakrar tilkynningar í hvert sinn. Hið sama gildir um samtöl í gegnum Office Communicator.

Símaupptökur eru gerðar á grundvelli heimildar í lögum um fjarskipti.

Viðskiptamanni er kunnugt um að upptökur kunna að verða lagðar fram í dómsmáli og/eða notaðar sem sönnunargagn í öðrum tilvikum komi upp ágreiningur um hvað aðilum fór á milli. Að öðru leyti skal félagið fara með upptökur líkt og með aðrar upplýsingar er lúta þagnarskyldu, sbr. 58. til 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Öll gögn sem innihalda upplýsingar um viðskipti viðskiptamanna og framkvæmd þeirra eru vistuð hjá félaginu í að lágmarki fimm ár.

Vefkökur

Kvika eignastýring hf. („Kvika eignastýring“) notar vefkökur (e. cookies) til að fylgjast með vafri notenda á vefsvæðinu kvikaeignastyring.is, bæta þjónustu Kviku eignastýringar og fleira. Vefkökur gera Kviku eignastýringu kleift að senda ákveðnar upplýsingar í vafra notenda sem getur auðveldað notendum aðgang með margs konar aðgerðum. Vefkökur geyma ekki persónuupplýsingar en geta innihaldið texta, númer og dagsetningar, svo dæmi séu tekin. Með því að samþykkja notkun Kviku eignastýringar á vefkökum er Kviku eignastýringu m.a. veitt heimild til að sníða leit og þjónustu við gesti vefsins til samræmis við fyrri notkun þeirra og auðkenningu, að muna eftir fyrri aðgerðum, að þróa og bæta þjónustu vefsins kvikaeignastyring.is og að safna upplýsingum um umferð og notkun vefsvæðisins.

Þú getur lokað fyrir notkun á vefkökum í stillingum vafrans sem þú notar. Í flestum vöfrum er að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að slökkva á vefkökum. 

Hvað eru vefkökur (e. cookies)?

Vefkökur eru litlar textaskrár sem vistaðar eru á tölvu eða öðrum snjalltækjum þegar vefsvæði Kviku eignastýringar er heimsótt í fyrsta sinn. Þegar þú heimsækir vefsíðuna næst í sama tæki man það eftir þér og hvernig þú notaðir síðuna.

Kvika eignastýring notar vefkökur í þeim tilgangi að bæta virkni vefsíðunnar með það að markmiði að bæta þjónustu við notendur. Það er stefna Kviku eignastýringar að nota vefkökur með ábyrgum hætti. Kvika eignastýring notar vefkökur til að sníða vefsvæðið að þörfum notenda t.d. til að vista stillingar notenda, til að vinna tölfræðilegar upplýsingar, til að greina umferð um vefsvæðið og í markaðslegum tilgangi.

Nauðsynlegar vefkökur (vefkökur frá fyrsta aðila)

Vefsíða Kviku eignastýringar notar bæði eigin vefkökur og vefkökur frá þriðja aðila. Eigin vefkökur Kviku eignastýringar eru kökur sem verða til á síðu Kviku eignastýringar. Vefkökur senda eingöngu upplýsingar til Kviku eignastýringar.

Nauðsynlegar vefkökur virkja eiginleika á vefsvæðinu sem verða að vera til staðar svo vefsvæðin virki eins og ætlast er til. Nauðsynlegar vefkökur eru vefkökur frá fyrsta aðila sem eingöngu eru notaðar af Kviku eignastýringu. Hér undir falla til dæmis kökur sem muna hvort notandinn er skráður inn á vefsvæði Kviku eignastýringar eða hvaða sérstöku stillingar notandinn hefur valið.

Vefkökur frá þriðja aðila

Vefkökur frá þriðja aðila eru vefkökur sem verða til vegna aðgerða sem stafa frá öðrum aðila en þeim sem rekur síðuna sem þú ert að heimsækja, aðila sem Kvika eignastýring er í samstarfi við eða hagnýtir þjónustu frá.  Vefkökur þriðja aðila gera það að verkum að þessir aðilar geta þekkt tækið þitt aftur og eru tilkomnar vegna þjónustu sem félagið notar.

Vefkökur frá þriðja aðila eru notaðar til að greina umferð um vefsíðu Kviku eignastýringar til að þróa og bæta þjónustu vefsvæðisins með því að fá innsýn í notkun þess og gera leit að tilteknu efni auðveldari.

Hvernig stilli ég vefkökur?

Vakin er athygli á því að þriðju aðilar, s.s. þeir sem veita markaðs- eða greiningarþjónustu á netinu, nota einnig vefkökur. Upplýsingar um notkun þeirra á vefkökur er hægt að finna á vefsíðum þeirra.

Notendur geta lokað á vefkökur með því að breyta stillingum á vafra. Með þeim hætti geta notendur dregið til baka samþykki sitt fyrir notkun á vafrakökum. Athuga skal að ef lokað er á allar kökur, þ.m.t. nauðsynlegar kökur, mun það hafa áhrif á virkni vefsíðunnar.

Nánari upplýsingar um hvernig stilla má vefkökur á mismunandi vöfrum má finna hér.

Meðferð Kviku eignastýringar á persónuupplýsingum

Kvika eignastýring hf. hefur sett sér persónuverndarstefnu sem finna má hér:
Persónuverndarstefna

Allar persónuupplýsingar sem kunna að verða til við notkun á vefkökum verða meðhöndlaðar og unnið með í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Kvika lýsir því yfir að ekki verði unnið með slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en að ofan greinir og þá verða upplýsingarnar ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Persónuupplýsingar verða ekki afhentar þriðja aðila nema lög kveði á um annað.

Verklag um meðferð kvartana

Kvika eignastýring reynir ávallt að hafa það að leiðarljósi að starfsemi félagsins sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Stór hluti þessa er að bregðast fljótt og vel við ábendingum og kvörtunum sem kunna að berast frá okkar viðskiptavinum.

Kvika eignastýring hefur sett sér reglur um meðferð kvartana en tilgangur þeirra er að tryggja að ferli við úrvinnslu kvartana viðskiptavina Kviku eignastýringar sé sanngjarnt, gagnsætt og að úrvinnslu- og svartími mála sé eins skammur og kostur er. Þá er tilgangur reglnanna einnig að koma í veg fyrir að mistök starfsmanna eða brot á lögum og reglum endurtaki sig.

Hafi viðskiptavinur einhverjar ábendingar eða kvartanir vegna meintra mistaka Kviku eignastýringar og/eða starfsmanna félagsins á framkvæmd laga eða reglna getur hann beint kvörtun til viðkomandi starfsmanns, með skriflegum hætti til regluvarðar Kviku eignastýringar með tölvupósti á netfangið regluvordur@kvikaeignastyring.is, eða með því að senda rafræna ábendingu í gegnum heimasíðu félagsins. Kvika eignastýring heldur skrá um kvartanir og meðhöndlun þeirra.

Reglur um meðferð kvartana

Réttarúrræði viðskiptavina

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Ef viðskiptavinur er ósáttur við þau svör sem félagið veitir, getur hann beint kvörtun sinni til  Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sem fjallar m.a. um ágreining viðskiptavina við fjármálafyrirtæki. Kvörtun til úrskurðarnefndarinnar skal afhent Fjármálaeftirlitinu skriflega á sérstöku eyðublaði sem má nálgast á skrifstofu eftirlitsins og heimasíðu þess. Erindi skulu send til:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Guðrúnartún 1
105 Reykjavík
Sími: 578 6500
Tölvupóstur: fjarmal@nefndir.is 

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila. Í því felst að leitast er við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í þeirra málum og aðrar almennar leiðbeiningar. Sjá nánar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands
Kalkofnsvegi 1
101 Reykjavík

Dómstólar

Aðilar geta leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum hafi ágreiningsefnið ekki verið undanþegið lögsögu þeirra með lögum eða samningi.

Neytendastofa

Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og  lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn.

LEI auðkenni

Í kjölfar gildistöku MiFID 2 reglugerðarinnar sem fyrirhuguð er 1. janúar 2021 er öllum lögaðilum skylt að vera með LEI auðkenni til að eiga viðskipti með skráða fjármálagerninga.

Hvað er LEI auðkenni?

LEI (Legal Entity Identifier) er einskonar alþjóðleg kennitala fyrir lögaðila. LEI auðkennið er 20 stafa númer. Markmið LEI auðkennisins er að gera alþjóðlegum eftirlitsaðilum kleift að fylgjast með viðskiptum einstakra lögaðila og bæta þannig eftirlit með kerfislægri áhættu og auðvelda rannsókn á misferli tengt viðskiptum með fjármálagerninga. Frekari upplýsingar má nálgast á vef ESMA:

Upplýsingar

Hverjir þurfa LEI auðkenni?

Fjármálaeftirlitið (FME) krefst þess að allir lögaðilar hafi LEI auðkenni til að eiga viðskipti með skráða fjármálagerninga, til dæmis hlutafélög, lífeyrissjóðir, vátryggingafélög og verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir. Einstaklingar þurfa ekki LEI auðkenni til þess að eiga viðskipti með skráða fjármálagerninga. Ekki er gerð krafa um LEI auðkenni vegna viðskipta lögaðila með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum. Sjá fréttatilkynningu FME fyrir frekari upplýsingar.

Útgefendur skráðra fjármálagerninga þurfa að hafa LEI auðkenni, til dæmis útgefendur hluta- og skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Fjármálafyrirtæki sem framkvæma viðskipti með skráða fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði verða að vera með LEI auðkenni.

Hvernig er sótt um LEI auðkenni?

Umsókn LEI auðkennis er gerð með rafrænum hætti og er hægt að sækja um hjá fjölda fyrirtækja. Í flestum tilvikum kostar það um 100 evrur og tekur 3-7 virka daga að fá LEI auðkenni en bæði verð og tímalengd getur verið breytileg á milli útgefanda. Í upphafi er greitt upphafsgjald en sækja þarf svo um árlega og greiða árgjald.

Fjöldi fyrirtækja gefur út LEI auðkenni og má finna þau öll hér. Fyrir neðan eru dæmi um fyrirtæki:

Hægt er að leita á síðunni að LEI auðkennum eftir nafni lögaðila til að kanna hvort þegar hafi verið gefið út LEI auðkenni.

Hvaða upplýsingar þarf til að sækja um LEI auðkenni?

Þegar sótt er um LEI auðkenni kunna útgefendur að biðja um eftirfarandi upplýsingar:

  • Skráð nafn lögaðila
  • Nafn lögaðila á ensku (ef við á)
  • Heimilisfang lögaðila
  • Ríki sem lögaðili var stofnaður í
  • Heimilisfang höfuðstöðva lögaðila (ef við á)
  • Kennitala lögaðila (Business Register Entity ID/Registration Authority Entity ID)
  • Númer Fyrirtækjaskrár Íslands, sem er RA000393 (Business Registrer/Restistration Authority) eða sambærilegt númer ef um erlend félög er að ræða
  • Félagsform lögaðila (t.d. hlutafélag, einkahlutafélag, sameignarfélag, sjóður o.fl.)
  • Upplýsingar um móðurfélag (Parent Entity, ef við á)
  • Upplýsingar um tengda lögaðila (Associated entity, ef við á)
  • Yfirlýsing um að umsækjandi hafi heimild til þess að sækja um fyrir hönd lögaðilans (Statement verifying the user is an Authorized to Register for on behalf of Legal entity) en í einhverjum tilvikum bjóða útgefendur upp á staðlað form
  • Vottorð úr fyrirtækjaskrá (Certificate of Registration) á ensku

Athugið að kröfum um upplýsingar geta verið mismunandi á milli útgefenda. Í einhverjum tilvikum þarf ekki að útvega allar ofangreindar upplýsingar og í öðrum gæti þurft að útvega frekari upplýsingar.

Hvert á að tilkynna LEI auðkennið?

Þegar lögaðili hefur fengið úthlutað LEI auðkenni þarf að senda það, gildistíma þess og upplýsingar um félagið (nafn, heimilisfang og kennitölu) til Kviku eignastýringar á thjonusta@kvikaeignastyring.is eða á þinn viðskiptastjóra.