Freyja kaupir 15% hlut í Matorku ehf.

fimmtudagur 08. apríl 2021

20210408 - Matorka - starfsstöð Grindavík - vetur.jpg

Framtakssjóðurinn Freyja, sem rekinn er af Kviku eignastýringu hf., hefur keypt rúmlega 15% eignarhlut í Matorku ehf. og verður í kjölfar viðskiptanna þriðji stærsti hluthafi félagsins. Matorka er fiskeldisfyrirtæki sem elur allan sinn fisk í stórum eldiskerjum á landi. Aðal áhersla félagsins er eldi á íslenskri bleikju en einnig framleiðir fyrirtækið regnbogasilung. Matorka hefur byggt upp stórar eldiseiningar við Grindavík og selur í dag bleikju og regnbogasilung til Evrópu og Norður-Ameríku. Á síðasta ári framleiddi félagið um 1.000 tonn af eldisfiski og hefur reksturinn skilað jákvæðri EBITDA framlegð frá árinu 2019. Fyrirtækið hefur þróað sjálfbærar framleiðsluaðferðir sem skila afurðum í hæsta gæðaflokki og njóta mikilla vinsælda á mörkuðum félagsins, þar sem umhverfisáhrif og ástand heimshafanna eru mikilvægir þættir fyrir krefjandi neytendur nútímans.

Þrátt fyrir flókna stöðu á fiskmörkuðum heimsins vegna covid-19 faraldursins hefur sölu og markaðsstarf Matorku gengið vel undanfarin misseri og hafa tekjur þess 18-faldast á síðastliðnum 5 árum eða frá því að framleiðsla hófst í nýrri eldisstöð við Grindavík. Stefna félagsins er að halda áfram á þeirri braut sem unnið hefur verið eftir á undanförnum árum og mun aðkoma Freyju að félaginu styðja við þau áform. Félagið hefur í dag starfsleyfi sem leyfir félaginu að margfalda framleiðslu sína í núverandi starfsstöð auk þess sem fyrirliggjandi fjárfesting í kerjum og öðrum framleiðslubúnaði leyfir félaginu að þrefalda núverandi framleiðslu á næstu 2 árum. Fulltrúi Freyju mun taka sæti í stjórn félagsins og taka virkan þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var ráðgjafi Matorku í viðskiptunum.

Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður Matorku ehf.:

„Það er í senn styrkur og viðurkenning fyrir teymið okkar í Matorku að fá Freyju inn í hluthafahópinn. Við höfum stækkað landeldisframleiðslugetu okkar úr 50 tonnum í 3.000 tonn á einungis fimm árum og höldum nú ótrauð áfram. Við stefnum á að fullnýta framleiðsluleyfi okkar innan fimm ára sem myndi u.þ.b. tífalda núverandi framleiðslu. Að baki félaginu býr áratuga reynsla stjórnenda fyrirtækisins og frumkvöðla þess í uppbyggingu landeldis og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þá þekkingu, sem og öflugt sölustarf, vekja áhuga hjá sterkum innlendum fagfjárfestum.“

Agnar 7.jpg

Margir Robertet, framkvæmdastjóri Freyju:

„Við sjáum mikil tækifæri í fjárfestingu Freyju í Matorku en fiskeldi hefur meira en fjórfaldast á síðustu 10 árum á Íslandi samhliða sívaxandi neyslu almennings á fiski. Styrkleikar Matorku felast einkum í umhverfisvænni framleiðslu, sterku stjórnendateymi með mikla reynslu af fiskeldi, öflugum eigendahópi og nægu landrými fyrir framtíðarvöxt. Fjárfestingin fellur enn fremur einkar vel að áherslum sjóðsins á ábyrgar fjárfestingar en félagið er leiðandi í sjálfbæru og umhverfisvænu fiskeldi.

 

Árni Páll Einarsson, forstjóri Matorku ehf.:

„Með súrnun sjávar og ört vaxandi plastmengun í heimshöfunum, þá eru vestrænir neytendur í síauknum mæli að leita að sjálfbærri sjávarfangsframleiðslu. Matorka nýtir sér einstakar náttúruaðstæður á Íslandi til þess að framleiða eftirsótta og afar bragðgóða hágæða vöru án þess að skaða umhverfið eða sjávarlífríkið.“

Um Freyju

Freyja framtakssjóður slhf. er 8 milljarða króna framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar hf. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum félögum með góða rekstrarsögu og áhugaverð vaxtartækifæri. Freyja var stofnuð um mitt ár 2018 með áskriftarloforðum tæplega 20 hluthafa, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta.