Fréttabréf Kviku eignastýringar í ársbyrjun 2023

mánudagur 16. janúar 2023

Erlendir markaðir

Alþjóðahagkerfið

Þegar líða tók á seinni hluta ársins 2021 var heimshagkerfið búið að ná sér á strik eftir afleiðingar COVID-19 faraldursins. Atvinnuleysi og hagvöxtur í mörgum af stærstu hagkerfum heimsins var komið á svipaðar slóðir og fyrir útbreiðslu farsóttarinnar og staða heimilanna var almennt nokkuð góð. Vaxtalækkanir og stuðningur hins opinbera bættu fjárhag heimilanna á sama tíma og samkomutakmarkanir og landamæralokanir takmörkuðu mjög möguleikana á eyðslu í ákveðnum neysluflokkum líkt og ferðalög . Eftirspurn eftir vörum jókst á sama tíma og framleiðsluhlið heimshagkerfisins hafði ekki náð fullri framleiðslugetu. Við þetta ójafnvægi varð til skortur á aðföngum, þ.e. vinnuafli, orku og öðrum íhlutum (t.d. örgjörvum). Við þetta bættist hár flutningskostnaður og mikið álag á flutningskeðjur sem jók enn á vandamálið. Niðurstaðan var sú að verð á vörum tók að hækka og var verðbólga um 7% í Bandaríkjunum í lok árs 2021 og hafði ekki verið hærri í næstum fjóra áratugi.

Í upphafi árs 2022 var hratt hækkandi verðbólga í brennidepli hjá markaðsaðilum. Umræðan snerist helst um það hversu langvarandi verðbólguskotið mynda vera og hversu mikið eða lítið seðlabankar heimsins ættu eða þyrftu að bregðast við. Hluti markaðsaðila trúði því að verðbólguskotið yrði skammlíft, þ.e. að verðbólgan myndi minnka hratt er framleiðsluhlið heimshagkerfisins kæmist í eðlilegra horf. Aðrir voru þeirrar skoðunar að verðbólgan yrði langlífari þar sem sterkir vinnumarkaðir myndu valda launahækkunum og illa gengi að greiða úr framleiðslu- og flutningshnökrum sem höfðu myndast í COVID-farsóttinni.  Þessar skiptu skoðanir leiddu til þess að óvissa jókst á eignamörkuðum.

Vonir þeirra markaðsaðila sem trúðu því að ekki þyrfti á miklum stýrivaxtahækkunum að halda til að temja verðbólguna brustu í febrúar í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu. Orku- og hrávöruverð rauk upp, skortur á aðföngum jókst á ný og verðbólgan hélt áfram að aukast. Ljóst var að seðlabankar þyrftu að bregðast hratt og örugglega við, sem þeir gerðu. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,25 prósent í mars 2022 en um 4,25 prósent samanlagt á árinu 2022.

Eftir innrásina bárust nánast daglega fréttir af nýjum viðskiptaþvingunum í garð Rússa. Þvinganir og almenn óvissa vegna stríðsins olli miklum og mögulega langvarandi truflunum á alþjóðlega hrávöru– og orkumarkaði. Viðskiptaþvinganir og hækkandi stýrivextir leiddu einnig til þess að hagvaxtarhorfur fóru hratt versnandi og þá sérstaklega í Evrópu. Samfara þeirri óvissu sem ríkti um framvindu stríðsins töldu markaðsaðilar að seðlabankar myndu hækka vexti hægt þar sem óvissan var mikil. Það kom því mörgum á óvart hversu miklar og hraðar stýrivaxtahækkanir voru á árinu og hversu harðorð peningamálayfirvöld voru. Hröð hækkun stýrivaxta leiddi til þess að ávöxtunarkröfur á skuldabréfamörkuðum ruku upp, áhættufælni og óvissa greip um sig og eignamarkaðir, bæði hlutabréfa og skuldabréfa, lækkuðu.

Harðar aðgerðir og harður tónn peningmálayfirvalda virtust á tímabili reyna á þolmörk fjármálamarkaða og þótti mörgum að fjármálastöðugleika væri ógnað. Í Bretlandi neyddist til að mynda Englandsbanki til þess að stíga inn á skuldabréfamarkað með kaupum á ríkisskuldabréfum, eftir áhlaup á breska lífeyrissjóði sem neyddi þá síðarnefndu til þess að selja skuldabréf í stórum stíl. Ávöxtunarkrafa hækkaði ótrúlega eða um tæp 3 prósent á skömmum tíma og gaf gengi pundsins verulega eftir. Úr þessum viðbrögðum gátu markaðsaðilar lesið að seðlabankar myndu minnka aðhaldsstigið til þess að tryggja fjármálastöðugleika.

Á seinni hluta ársins 2022 voru áfram miklar sveiflur á eignamörkuðum þar sem markaðsaðilar voru mjög næmir fyrir birtingu nýrra hagtalna og skilaboðum seðlabanka. Markaðsaðilar reyndu að meta hvort hið versta væri yfirstaðið, verðbólga væri búin að ná hámarki og rými væri til að hægja á stýrivaxtahækkunum eða jafnvel hefja vaxtalækkunarferlið. Augu allra voru á bandaríska vaxtamarkaðnum en stærð og mikilvægi hans gerir hann að ákveðnum grunni fyrir aðra vaxtamarkaði heimsins og því skiptir vaxtastigið þar miklu máli fyrir eignamarkaði heimsins. Vísbendingar um minnkandi verðbólguspennu í Bandaríkjunum gáfu markaðsaðilum von um að ekki þyrfti að hækka stýrivexti jafn mikið og ella. Þær hleyptu því á tímabilum miklu lífi í bandarískan eignamarkað sem smitaðist til annarra landa. En sömuleiðis leiddu verri verðbólguhorfur til tímabila þar sem svartsýni réð ríkjum og eignamarkaðir lækkuðu. Miklar sveiflur í ávöxtun á milli tímabila var því einkennandi fyrir árið 2022.

Bandaríkjadalur var í miklum styrkingarham á árinu 2022 en sem dæmi þá styrktist Bandaríkjadalur um tæp 6% gagnvart evru. Hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum eru heldur skárri en í öðrum stórum hagkerfum heims og á síðustu mánuðum hefur Seðlabanki Bandaríkjanna hækkað stýrivexti hraðar en aðrir stórir seðlabankar heimsins. Þessir þættir skýra að mestu leiti styrk Bandaríkjadals á árinu sem leið. Þar að auki er algengt að fjárfestar leiti í Bandaríkjadal þegar óvissa á mörkuðum eykst.

Erlendir skuldabréfamarkaðir

Þrátt fyrir miklar lækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum árið 2022 voru það erlendir skuldabréfamarkaðir sem komu markaðsaðilum almennt hvað mest á óvart. Hraðar og miklar stýrivaxtahækkanir hjá stærstu seðlabönkum heimsins voru töluvert umfram væntingar markaðsaðila sem leiddi til þess ávöxtunarkröfur ruku upp. Ávöxtunarkrafa á 10 ára bandarískum ríkisskuldabréfum hækkaði til að mynda úr 1,5% í 3,9% á árinu.  Sambærilegar hækkanir á ávöxtunarkröfum mátti sjá víðs vegar um heiminn. Hækkun ávöxtunarkrafna lækkar virði skuldabréfa sem veldur neikvæðri ávöxtun og lækkaði heimsvísitala skuldabréfa (Bloomberg Global Aggr. Index), mæld í Bandaríkjadal, um 16% á árinu. Slík verðlækkun á skuldabréfamarkaði hefur ekki sést í tugi ára. Þegar illa árar í hagkerfinu, líkt og árið 2022, leita fjárfestar gjarnan í skjól í skuldabréfum en það er ljóst að í fyrra var ekkert skjól að finna.

Erlendir hlutabréfamarkaðir

Ávöxtun heimsvísitölu hlutabréfa var slök á árinu 2022 en alls lækkaði heimsvísitalan um 18%, mæld í Bandaríkjadal. Lækkun hlutabréfa hefur verið sambærileg milli landsvæða en einstaka lönd líkt og t.d. Rússland og Kína urðu verr úti. Hlutabréfamarkaður Rússlands lækkaði meira en annarra landa vegna ítrekaðra viðskiptaþvingana sem voru lagðar á Rússland. Í Kína höfðu neikvæðar hagvaxtarhorfur afar neikvæð áhrif á eignamarkaði. Sterkari Bandaríkjadalur ásamt vandræðum á kínverska fasteignamarkaðnum skýra einnig veikari ávöxtun kínverska markaðarins á síðasta ári.

Þrátt fyrir að lækkun hlutabréfa hafi verið nokkuð jöfn milli landsvæða þá var töluverður munur á ávöxtun atvinnugreina. Tæknigeirinn átti undir högg að sækja, en á árinu lækkaði Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum (sem inniheldur mörg tæknifyrirtæki) um 32%. Hærri vextir hafa sögulega haft slæm áhrif á tæknifyrirtæki sem þurfa gjarnan að reiða sig á góð fjármögnunarkjör til að knýja áframhaldandi vöxt og höfðu hækkandi vextir í fyrra slæm áhrif á tæknifyrirtæki. Fyrirtæki í orkugeiranum hækkuðu hins vegar nokkuð samfara hækkandi orkuverði en heimsvístala MSCI fyrir fyrirtæki í orkugeiranum hækkaði um tæp 48% á síðasta ári.

Horfur fyrir árið

Hagvaxtarspár erlendra greiningaraðila gera almennt ráð fyrir því að stærstu hagkerfi heimsins eigi eftir að fara inn í stutt samdráttarskeið í kringum miðbik ársins 2023. Almennt er gert ráð fyrir því að verðbólga muni ná hámarki á árinu, í þeim tilfellum þar sem hún hefur ekki þegar gert það, og byrja svo að hjaðna. Við slíkar aðstæður myndast tækifæri fyrir seðlabanka til þess að draga úr aðhaldsstiginu og lækka vexti. Til að mynda hefur skuldabréfamarkaðurinn, þegar þetta er skrifað, verðlagt stýrivaxtalækkun í Bandaríkjunum fyrir árslok 2023. Lægri vextir ættu að styðja við eignaverð, bæði skuldabréf og hlutabréf, en vegna minnkandi umsvifa í heimshagkerfinu þurfa fjárfestar á hlutabréfamarkaði að setja sér hóflegar væntingar um ávöxtun. Um þetta ríkir þó mikil óvissa og ef verðbólga reynist þrálát kann að vera að stýrivextir haldist háir lengur en verðlagning markaðarins segir til um.

Sterkur vinnumarkaður og sterkur efnahagur heimila vega á móti verri hagvaxtarhorfum, en almennt er gert ráð fyrir að samdrátturinn verði grynnri í Bandaríkjunum en til að mynda í Evrópu. Seðlabanki Bandaríkjanna hóf vaxtahækkunarferli sitt fyrr og því er ekki von á jafnmiklum vaxtahækkunum þar og í Evrópu. Evrópa er þessu til viðbótar enn að glíma við afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu og hefur hækkun orkuverðs í Evrópu bein áhrif á útgjöld heimilanna auk þess sem óvissa vegna stríðsins heldur óvissustiginu háu.

Töluverð óvissa ríkir um stöðuna í Kína. Kína er næstum eina landið í heiminum sem var ekki að glíma við verðbólgu í fyrra. Þar er því rými til að halda áfram að prenta peninga og halda vaxtastigi lágu sem ætti að gefa hagkerfinu byr undir vængi. Mikil eftirvænting ríkir einnig meðal markaðsaðila um hversu vel til tekst að aflétta COVID-19 takmörkunum sem hafa verið við lýði síðustu þrjú ár. Ljóst er að þegar létt verður á takmörkunum mun smitum fjölga og óljóst er hvernig heilbrigðiskerfið ræður við það. Þegar framleiðsla í Kína kemst í eðlilegt horf mun hagvöxtur aukast sem mun hafa jákvæð áhrif á viðskiptalönd Kína vegna stærðar þess.

Miðað við ofangreint gerum við ráð fyrir að hið versta sé yfirstaðið. Verðbólga og vextir hafi náð hámarki eða séu nærri því og það muni draga úr óvissu þegar líður á árið. Hins vegar má gera ráð fyrir áframhaldandi flökti á eignamörkuðum þar til að ljóst er að vaxtahækkunarferlinu sé lokið. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði er mjög há í sögulegu ljósi og teljum við því hann vera orðinn mjög álitlegan fjárfestingarkost.  Ólíkt skuldabréfamarkaði þá eru vísbendingar um að hlutabréfamarkaður sé ekki búinn að verðleggja verri hagvaxtarhorfur sem kann að hafa neikvæð áhrif þegar nýjar afkomuspár verða birtar á árinu. Þó verður einnig að horfa til þess að hlutabréf tóku út nokkuð stóra leiðréttingu á árinu 2022 og því er verðlagning hagstæð. Horft niður á landsvæði, þá er talið að bandarískur hlutabréfamarkaður verði með yfirhöndina í ár þar sem hagvaxtarhorfur séu betri þar en t.d. í Evrópu. Margir kaupendur hlutabréfa munu horfa til þess að seðlabankar hafa á síðustu árum verið fljótir að snúa sér og stutt ríkulega við hagkerfin t.d. með vaxtalækkunum og munu gera það þegar verðbólgudraugurinn hefur verið kveðinn niður.

Innlend skuldabréf

Árið 2022

Hröð hækkun verðlags var einnig vandamál hér á landi árið 2022. Verðbólgan hér var hins vegar annars eðlis en erlendis þar sem rúmlega helming hennar mátti rekja til húsnæðisverðshækkana. Evrópa var hins vegar að kljást við orkukrísu og var um helmingur af verðbólgunni þar hækkandi orkuverð en í Bandaríkjunum vó matarverðbólga mest. Seðlabanki Íslands lét ekki sitt eftir liggja og hélt áfram vaxtahækkunarferli sem hann hóf í maí 2021 og hækkaði vexti á árinu um samanlagt fjögur prósentustig. Því til viðbótar lækkaði fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur og setti frekari kröfur við útreikning greiðslubyrðar í reglum fasteignalána sem voru til þess fallin að kæla húsnæðismarkaðinn. 

Bein neikvæð áhrif innrásar Rússa í Úkraínu voru lítil hér á landi í samanburði við önnur lönd. Hækkun hrávöruverðs olli því m.a. að eldsneytisverð hækkaði en sömuleiðis hækkaði álverð og verð sjávarafurða svo viðskiptakjör okkar bötnuðu í raun á árinu.

Nú er gert ráð fyrir að hagvöxtur ársins 2022 hafi verðið tæp 6%, samkvæmt spá Seðlabankans og var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar. Þá er talið að einkaneysla hafi aukist um 7% sem má að mestu rekja til aukinna útgjalda Íslendinga erlendis, en staða heimilanna var afar góð þar sem mikill sparnaður hafði safnast upp á tímum COVID-19 farsóttarinnar. Samhliða auknum ferðavilja Íslendinga fjölgaði erlendum ferðamönnum hingað til lands þegar ferðatakmörkunum var aflétt í febrúar. Hingað til lands komu um 1,7 milljón ferðamanna á árinu 2022 og var eyðsla á hvern ferðamann meiri en fyrir útbreiðslu faraldursins. Tekjur af erlendum ferðamönnum voru þó ekki nægar til þess að skila afgangi á viðskiptajöfnuði því útgjöld Íslendinga erlendis vógu þungt á móti. Þetta auk annarra þátta, olli því að krónan veiktist og gengi evrunnar hækkaði um tæp 3% á árinu.

Atvinnuleysi lækkaði úr 5% í rúm 3% á árinu og var miklum skorti á starfsfólki mætt með innflutningi starfsfólks. Mikil spenna ríkti því á vinnumarkaði þegar lífskjarasamingarnir runnu sitt skeið í lok nóvember. Mikilli óvissu var aflétt þegar kjarasamningar milli SGS og VR voru undirritaðir í desember. Í ljósi mikillar verðbólgu var niðurstaðan stuttur samningur með tæplega 7% launahækkunum. Samningar hafa þó ekki náðst milli SA og Eflingar og hefur Efling boðað verkföll.

Hratt hækkandi stýrivextir leiddu til hækkunar ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Hærri ávöxtunarkrafa lækkar virði skuldabréfa og lækkaði nafnávöxtun ríkisskuldabréfavísitölu Kviku eignastýringar (KVIKAGOVI) um 2,7% á árinu. Óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 4,1% en sá verðtryggði lækkaði um 0,2%. Vextir á markaði hér heima hækkuðu um rúmlega 3 prósentustig á stutta enda vaxtaferilsins samhliða stýrivaxtahækkunum Seðlabankans.

Titringur var á skuldabréfamarkaði eftir að fjármálaráðherra tilkynnti í lok október tillögur að lausn ÍL-sjóðs (gamla Íbúðalánasjóðs). Tillaga fjármálaráðherra er að semja við kröfuhafa (sem eru að mestu leyti lífeyrissjóðir en einnig stofnanir, félög og einstaklingar) en takist það ekki verði ÍL-sjóður settur í gjaldþrotaskipti með lagasetningu eftir áramót. Samkvæmt áliti fjármálaráðherra er ríkissjóður einungis í einfaldri ábyrgð gagnvart ÍL-sjóði sem þýðir að fari sjóðurinn í gjaldþrot mun ríkið einungis þurfa að greiða höfuðstól, áfallna vexti og verðbætur til skuldabréfaeigenda en ekki fullt markaðsvirði sem var mun hærra fyrir tilkynningu ráðherra.  Frá tilkynningunni hefur ávöxtunarkrafa skuldabréfa Íbúðalánasjóðs hækkað og verð þeirra því lækkað og eru bréfin nú á uppreiknuðu verði í Kauphöllinni. Í kjölfar tillögu fjármálaráðherra létu lífeyrissjóðirnir vinna lögfræðiálit þar sem fram kemur að fyrirhuguð lagasetning fjármálaráðherra brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt kemur þar fram að fjármálaráðherra beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs eftir þær breytingar sem urðu á Íbúðalánasjóði við lagabreytingu árið 2019 en þá var sjóðnum skipt upp og ÍL-sjóður rann inn í fjármálaráðuneytið. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls á næstu misserum.

Horfur fyrir árið

Margt bendir til þess að verðbólga hér að landi hafi toppað og muni fara hratt hjaðnandi á næstu mánuðum. Tölur á fasteignamarkaði benda til þess að markaðurinn sé að kólna hratt og því allar líkur á því að við munum sjá áhrif þess á komandi mánuðum í verðbólgunni. Sá þáttur verðbólgunnar sem gæti helst haft áhrif til hækkunar væri innfluttar vörur en þrátt fyrir umræðu um hækkandi framleiðslu- og afurðaverð erlendis er 12 mánaða hækkunartaktur innfluttra vara í vísitölu neysluverðs einungis 7%. Stóra spurningin varðandi verðbólguna er þó krónan. En áfram er búist við halla á viðskiptajöfnuði. Gengi evru hefur hækkað um rúm 2% það sem af er ári og er nú um 154 gagnvart krónu og hefur ekki verið hærra síðan snemma árs 2021. Gengi Bandaríkjadals  hækkað nánast stöðugt síðasta ár gagnvart flestum myntum og um rúm 11% gagnvart krónu á síðustu 12 mánuðum. Ef bandaríski Seðlabankinn heldur áfram að koma markaðnum á óvart með meiri vaxtahækkunum og vaxtamunur við Ísland minnkar er hætt við því að vextir á Íslandi þurfi að hækka til að koma í veg fyrir frekari þrýsting til veikingar krónunnar.

Ferðaþjónustan hefur náð vopnum sínum aftur eftir COVID-19 en nokkuð líklegt er að árið 2023 verði krefjandi sökum mikillar verðbólgu og skertra lífskjara á heimsvísu. Hlutfall bandarískra ferðamanna hefur hins vegar verið hátt hér á landi en við höfum mun minni áhyggjur af ferðamönnum þaðan þar sem sterkt gengi Bandaríkjadals gerir það að verkum að Ísland er ódýrara en áður fyrir þá. Þrátt fyrir að stór hluti vinnumarkaðarins undirritaði kjarasamninga nú í desembermánuði verður að teljast áhyggjuefni að þeir kjarasamningar sem eftir eru standa í lausu lofti og ekki útlit fyrir að sátt náist milli aðila án átaka.

Verðbólguálag á íslenskum skuldabréfamarkaði hefur lækkað nokkuð eftir að hafa toppað í kjölfarið innrásar Rússa í Úkraínu. Sögulega séð er þó verðbólguálag enn hátt (5 ára álag stendur í 4,5%) sem kemur til vegna mikillar óvissu á mörkuðum. Horft til framvirkra vaxta á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum gerir íslenskur skuldabréfamarkaður ráð fyrir því að stýrivextir verði komnir í rúmlega 7% um mitt  ár sem gerir um eins prósents hækkun á næstu mánuðum. Það er svo ekki fyrr en um mitt ár 2025 að framvirkir vextir taka að lækka, þó ekki nema í 6%. Að okkar mati er þetta ólíkleg sviðsmynd en líklega mun þróun krónunnar á næstu misserum hafa töluverð áhrif á viðbrögð Seðlabankans.

Innlend hlutabréf

Árið 2022

Innlendur hlutabréfamarkaður átti undir högg að sækja líkt og erlendir hlutabréfamarkaðir á árinu 2022. Vaxtahækkanir erlendis og hér heima og óvissa tengd þeim höfðu neikvæð áhrif á markaðinn og þrátt fyrir að horfur hér heima væru betri virtist sem slæmar fréttir fyrir utan landsteinana hefðu meiri áhrif en góð staða fyrirtækja hér á landi. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 27% á árinu, þó lækkunin hafi verið öllu minni þegar heildarvísitala allra félaga (OMXIGI) er skoðuð, eða 12%. Iceland Seafood rak lestina og lækkaði um 59% en Marel um tæp 44%. Þrátt fyrir erfitt ár þá hækkaði um þriðjungur af félögunum í Kauphöllinni í virði. Origo hækkaði t.d um 38% og Síldarvinnslan um 20%.

Markaðurinn tók hins vegar jákvæðum breytingum á árinu er fjögur ný félög voru skráð á markað. Það styrkir innlendan hlutabréfamarkað að mörg og fjölbreytt fyrirtæki séu skráð á hann m.a. til þess að auka áhættudreifingu. Ölgerðin og Nova voru skráð á Aðalmarkað en Amaroq og Alvotech á First North markaðinn. Hið síðarnefnda var síðan flutt á Aðalmarkað í desember síðastliðinn.

Mikil eftirvænting var eftir uppfærslu íslenska hlutabréfamarkaðarins í flokk nýmarkaðsríkja FTSE-Russell. Væntingar voru um talsvert erlent flæði í hlutabréf frá erlendum vísitölusjóðum sem myndi hleypa miklu lífi í hlutabréfamarkaðinn sem hafði átt erfitt uppdráttar. Lagt var upp með að uppfærslan yrði gerð í þremur skrefum og fyrsta skrefið var tekið í september. Margir höfðu ef til vill spennt bogann of hátt og sátu eftir með sárt ennið þegar ljóst varð að kaupvilji erlendra aðila mætti ekki söluvilja innlendra aðila svo þrýstingur varð á hlutabréfaverð og niðurstaðan sú að hlutabréfaverð lækkaði í stað þess að hækka. Seinna skrefið, sem var í desember, gekk áfallalaust fyrir sig og virðist sem innlendir aðilar hafi mætt til leiks með hófstilltari væntingar. Síðasta skrefið verður tekið í mars á þessu ári. Þrátt fyrir hnökra við innkomu erlendra vísitölusjóða mun flokkunin styðja við hlutabréfamarkaðinn og von er á að hlutabréfamarkaðurinn fái sambærilega flokkun hjá MSCI fljótlega.

Nokkur stór viðskipti urðu á árinu. Síminn seldi Mílu til erlendra aðila fyrir rúma 70 ma.kr. og Origo seldi allan hlut sinn í Tempo fyrir 29 ma.kr. Við þessi viðskipti losnuðu talsverðir fjármunir sem kunna að hafa leitað aftur inn á markaðinn. Síldarvinnslan festi kaup á Vísi í Grindavík og keypti einnig um þriðjungshlut í fiskeldisfélaginu Arctic Fish. Brim gekk frá samkomulagi um kaup á 50% hlut í Polar Seafood. Hampiðjan keypti norska félagið Mörenot fyrir um 15 ma.kr. með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Umtalaðasta sala ársins var hins vegar sala íslenska ríkisins á 22,5% eignarhlut í Íslandsbanka í mars og eigum við enn eftir að sjá lokaniðurstöðu hennar.

Horfur fyrir árið

Eftir þungt síðasta ár er það huggun harmi gegn að árið fer vel af stað og hefur íslenski markaðurinn hækkað um meira en 5% það sem af er janúar. Hækkunin er drifin áfram af hækkunum í Marel og Alvotech. Fram undan eru áhugaverðir mánuðir á fjármálamörkuðum enda eru markaðir í þróuðu ríkjum að segja skilið við eitt versta ár þegar horft er til afkomu skuldabréfa og hlutabréfa. Þótt miklar lækkanir á hlutabréfum á einu ári skili oftast góðri ávöxtun í kjölfarið, er mikilvægt að hafa í huga þá óvissu sem ríkir er varðar verðbólguþróun og viðbrögð seðlabanka. Spár flestra greiningaraðila er á þá vegu að Evrópa sé að sigla inn í stutt samdráttarskeið en horfurnar fyrir Bandaríkin eru eilítið betri. Verri alþjóðlegar hagvaxtarhorfur eru líklegri til að hafa neikvæð áhrif á hlutabréf á fyrri helmingi ársins hið minnsta. Horfur fyrir Ísland eru hins vegar góðar. Væntingar eru um góðan rekstur ferðaþjónustunnar í ár auk þess sem verð sjávarafurða er í sögulegum hæðum og fátt bendir til verulegra lækkana þar. Útlitið er því gott hjá útflutningsgreinum sem mun hafa jákvæð áhrif á innlent hagkerfi.

Marel glímdi við brostnar aðfangakeðjur og hækkandi afurðaverð sem kom niður á afkomu þess í fyrra. Við teljum þessa erfiðleika tímabundna og fljótlega á árinu munu framlegðarhlutföll ná eðlilegri gildum. Pantanastaðan er góð og samlegðaráhrif af kaupum félagsins á Wenger eiga eftir að skila sér. Auk þess er framtíðarsýn fyrir félagið óbreytt, þ.e. fyrirséð er að eftirspurn eftir rafrænum framleiðslueiningum í matvælaiðnaði muni aukast til muna, m.a. vegna síhækkandi launakostnaðar og skorts á starfsfólki í kjötframleiðslu.

Alvotech varð í sumar fyrsta íslenska félagið til að vera skráð bæði á markað í Bandaríkjunum og á Íslandi. Alvotech er líftæknifyrirtæki sem hefur byggt upp sérhæfða hátæknimiðstöð hér á landi með allri aðstöðu á einni hendi til þróunar og framleiðslu á líftækni hliðstæðulyfjum. Fyrsta vara félagsins er hliðstæða við gigtarlyfið Humira. Sala og dreifing er þegar hafin í Kanada og Evrópu og er gert ráð fyrir að hún hefjist í Bandaríkjunum í júlí. Vöxtur félagsins hefur verið mikill og þegar þetta er ritað er Alvotech orðið stærsta félagið í Kauphöllinni. Félagið hefur hækkað um fimmtung það sem af er ári, eftir nærri 60% hækkun í desember síðastliðnum. Tilkynning í desember um að bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hafi lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi AVTO2 og staðfest útskiptileika og tilkynning í byrjun janúar um samþykki FDA að taka fyrir umsókn um markaðsleyfi fyrir nýju lyfi (ATV04) voru helstu hvatar að þessum miklu hækkunum.

Okkar mat er að bankar muni áfram skila góðri afkomu og ávöxtun í hávaxtaumhverfi. Umræða um bankana í byrjun árs mun að mestu snúast um erfiða stöðu á fjármögnunarmörkuðum og hækkandi kjörum, en Landsbankinn er með mestu endurfjármögnunarþörf á árinu 2023 en Arion þá minnstu. Hækkandi lánskjör bankanna mun þó ekki bíta fast í vaxtamun fyrst um sinn.

Sterkur rekstur fasteignafélaganna í gegnum áföll síðustu ára gerir fasteignafélögin að áhugaverðum fjárfestingarkosti í auknum hagvexti og endurreisn ferðaþjónustunnar. Þrátt fyrir að fjármagnskostnaður hafi hækkað er útlit fyrir að tekjur muni halda í við verðbólgu, eftirspurn eftir eignum sé góð og rekstrarhagnaður félaganna aukist milli ára.

Hækkandi flutningsverð í tengslum við COVID-19 faraldurinn hefur haft góð áhrif á afkomu Eimskips undanfarin ár. Ákveðin óvissa er uppi varðandi það hvernig rekstur félagsins verður þegar jafnvægi næst á flutningskeðjur og flutningsverð tekur að lækka. Við teljum þó að flutningsverð verði hærra en fyrir faraldurinn og félagið verði arðbært. Þekking nýrra og reyndra lykilhluthafa og stjórnenda í skiparekstri mun hafa þau áhrif að viðhaldsfjárfestingar munu minnka fram á veginn sem mun viðhalda því kostnaðarhagræði sem þegar hefur náðst. Reynist það rétt teljum við að tækifærin hjá Eimskip séu vanmetin.

Sjávarútvegsfyrirtækin áttu mjög gott ár í fyrra, bæði vegna hækkandi afurðaverðs og stóraukins loðnukvóta. Vonbrigði eru með loðnukvóta ársins 2023 og eins og staðan er núna verður kvóti ársins einungis um 20% af kvóta síðasta árs. Þrátt fyrir að um mikla minnkun á magni sé um að ræða þá standa væntingar til þess að verðmæti aflans minnki einungis um helming þar sem afurðaverð hefur hækkað. Verðlagning Síldarvinnslunnar, horft á hefðbundnar kennitölur, er talsvert hærra en Brims. Er það líklega fyrst og fremst vegna væntinga um talsverð samlegðaráhrif við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi og ánægju með að félagið hafi dýpt tánni dýpra í fiskeldið.

Óvissa í ferðaþjónustunni var allsráðandi í blábyrjun árs 2022, en fljótlega fóru að berast jákvæðar fréttir frá ferðaþjónustunni um góða bókunarstöðu fyrir sumarið. Ferðamenn um Keflavíkurflugvöll voru um 1,7 milljónir í fyrra, sem er svipaður fjöldi og árið 2016, en vonir eru um að fleiri sæki landið heim í ár. Aðilar í ferðaþjónustu bera höfuðið hátt og erum við bjartsýn fyrir hönd Icelandair og Play fyrir árið.

Fjarskipta- og tæknifélögin gengu í gegnum áhugaverða tíma á síðasta ári. Nova var skráð á Aðalmarkað, Sýn fékk nýjan kjölfestufjárfesti, Síminn seldi Mílu og Origo losaði allan hlut sinn í Tempo eins og áður sagði. Framtakssjóðurinn Umbreyting hefur eignast um 30% hlut í Origo og hyggur á stærri hlut. Óvíst er hvort Origo verði áfram skráð á markað. Árið í ár verður líklega krefjandi fyrir þessi fyrirtæki þar sem samkeppni er áfram mikil og tekjuvöxtur því torsóttur.

Óhætt er að segja að COVID-19 farsóttin hafi verið hagfellt tímabil fyrir tryggingafélögin. Samkomutakmarkanir og fáir ferðamenn drógu úr tjónatíðni á sama tíma og eignaverð hækkaði talsvert. Í ársbyrjun 2022 var búist við því að tjónahlutföll félaganna myndu rjúka upp með opnun hagkerfisins en það varð ekki raunin. Vátryggingareksturinn hélt furðu vel sjó, sér í lagi hjá Sjóvá, þótt ávöxtun fjárfestingasafna félaganna hafi verið lítil sem engin. Við höfum ekki háar væntingar til vátryggingarhluta félaganna í ár en teljum þó að þau haldi sig flest undir 100% samsettu hlutfalli. Ef hluta- og skuldabréfamarkaðir verða hagfelldir á árinu þá teljum við félögin geti skilað hluthöfum góðri ávöxtun.

Smásölufélögin glíma við miklar hækkanir á innlendu og erlendu aðfangaverði, hvort sem það er vegna matvæla eða eldsneytis. Til viðbótar hefur flutningskostnaður hækkað mikið á síðustu misserum. Ofan á þetta bætast launahækkanir samkvæmt kjarasamningum. Aukning í ferðaþjónustu styður félögin að einhverju leyti, sér í lagi í eldsneytissölu, en á móti verður líklega barátta að halda framlegðarhlutföllum og ná vexti í framlegð eins og fyrsta uppgjör Haga á árinu sýnir.

Í heild erum við hóflega bjartsýn fyrir árið. Ekki verður komist hjá því að þróun á mörkuðum erlendis mun áfram smitast til íslenska markaðarins og áfram verði talsverðar sveiflur. Hækkandi vextir að viðbættu mögulegu samdráttarskeiði í Bandaríkjunum og Evrópu mun hafa áhrif á eignamarkaði á Íslandi. Hins vegar bendir margt til þess að hagkerfið okkar standi á sterkari stoðum en mörg önnur, sér í lagi ef sjávarútvegurinn fær meðbyr og ferðaþjónustan fer á frekara flug. Því til viðbótar standa öll félög í Kauphöllinni mjög vel fjárhagslega. Árið verður þó eflaust misskipt milli félaga þegar kemur að ávöxtun hlutabréfa, en sum munu berjast í bökkum við að skila framlegðarbata og vekja áhuga fjárfesta á meðan árið lítur mjög vel út fyrir önnur.

Fyrirvari